Seðlabúnt í teygju

Haustið 2003 kom japanski rithöfundurinn Haruki Murakami til Íslands til að taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík. Hann kom ásamt konu sinni  með flugvél frá Kaupmannahöfn laugardaginn 6 september en opnunarhátíðin var áætluð daginn eftir með hátíðarræðum og upplestri. Það er vel hugsað um þá erlendu höfunda sem koma á bókmenntahátíðina og þannig var það einnig árið 2003. Þennan laugardag þegar Murakami átti að lenda í Reykjavík var von á fleiri höfundum til landsins  með sömu flugvél.  Hennig Mankel og Saramago, portúgalski nóbelsverðlaunahöfundurinn voru einmitt samferða Murakami-hjónunum

Fulltrúi bókmenntahátíðar beið á Keflavíkurflugvelli til að taka á móti þessum tignu gestum. Henning Mankel og Saramago komu fljótlega út í gegnum dyrnar á Keflavíkurflugvelli sem komufarþegar fara í gegnum en Murakami lét bíða eftir sér. Þau stóða þarna þrjú, Saramago, Mankel og fulltrúi bókmenntahátíðar og biðu þess að  Murakami og kona hans kæmu í gegnum sömu dyr (þær einu) og hinir höfundarnir. Mínútur liðu og ekki birtust Murakami hjónin. Á endanum fékk fulltrúi bókmenntahátíðar leyfi tollayfirvalda – enda Mankel orðinn pirraður á biðinni – til að ganga inn í komusalinn til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með þau hjón og teyma þau út til svo ferðin til Reykjavíkur gæti hafist. Fulltrúinn leitaði um allan komusalinn, inni í fríhöfninni og við tapað/fundið-borðið. Murakamihjónin voru glötuð og hvergi finnanleg.

Á endanum var ákveðið að keyra í bæinn án Murakami-hjónanna því þau virtust algerlega vera gufuð upp af yfirborði jarðar. Öðrum fulltrúum bókmenntahátíðar var gert viðvart um að Murakami væri horfinn. Eftir stutta eftirgrennslan kom þó í ljós að hjónin höfðu fyrir nokkuð löngu skráð sinn inn á það hótel í Reykjavíl sem þeim var ætlað að búa. Reyndust þau hafa  komið með sömu flugvél og Mankel og Saramago en gengið óséð í gegnum flughöfnina og komið sér upp á eigin spýtur til Reykjavíkur, framhjá vökulu auga fulltrúa bókmenntahátíðar sem stóð í viðbragðsstöðu við komudyrnar. Hinn týndi rithöfundur var fundinn.

Tveimur kvöldum síðar, eða á mánudagskvöldið, var Murakami á dagskrá bókmenntahátíðarinnar og spjallaði við Silju Aðalsteinsdóttur um bókmenntir. Ég fékk það góða hlutverk að ferja Murakami-hjónin eftir spjallið aftur á hótelið. Ég var ögn nervus yfir þeirri ábyrgð sem mér var falin; að flytja þennan fræga en þögla rithöfund og konu hans á hótelið í Þingholtunum. Ég hafði í tilefni af bíltúrnum hugsað upp allskyns þægileg umræðuefni til að fitja upp á leiðinni til hótelsins. Ekki vildi ég keyra  með frægan rithöfund og konu hans innanborðs frá jafnfjarlægu landi og Japan í þrúgandi þögn um götur Reykjavíkur.

Murakamihjónin komu út í bíl til mín – ég átti virðulegan, gamlan Mercedes á þessum tíma – nánast áður en spjalli rithöfundarins lauk við Silju. Ég varð eiginlega dálítið hvumsa yfir því hve snögglega þau höfðu birst við hlið bílsins og gert sig líkleg til að stíga inn. Varð þessi óvænta innkoma þeirra til þess að ég gleymdi fyrirhuguðum umræðuefnum og spurði af mínu gamla sakleysi um leið og þau höfðu spennt sætisólarnar: „Herra Murakami (frú Marakami sat aftur í og herra Murakami sat fram í og því beindi ég spurningunni að honum) hvernig tókst þér að birtast svona fljótt hér við bílinn minn? Spjallinu er varla lokið. Ég geri ráð fyrir að Silja sitji enn á sviðinu. Og hvernig tókst þér að komast óséður út úr flughöfninni í Keflavík á laugardaginn. Það var beðið eftir ykkur við útganginn en samt komumst þið óséð framhjá öllum? Og hvernig tókst ykkur að komast svo skjótt til Reykjavíkur þennan dag?“

Sennilega hef ég verkað fremur óyfirvegaður ungur maður – Murakami vissi auðvitað að ég var útgefandi hans – sem bar upp  þetta spurningaregn jafnskjótt og hann settist inn í bílinn, því hann svaraði hikandi, eins og hann velti fyrir sér hversu nákvæmt svar hann ætti að gefa. Hann horfði rannsakandi á mig áður en hann hóf raust sína. Murakami hefur feimnislegt yfirbragð og er bæði lágmæltur og blíðmáll.

„Veistu hvað?“ sagði hann um leið og hann leit undan. Hann þagnaði og horfði stutta stund út um hliðarrúðuna (það rigndi þetta kvöld og það var rökkur á bílastæði Norræna hússins þar sem samtalið við Silju hafði farið fram (ekki á bílastæðinu heldur inni í samkomusalnum.)). „Árið 1974 opnuðum við bar í úthverfi Tokyo. Við áttum enga peninga, við vorum nýgift og ég þurfti að fara voinna mér inn pengina. Mig langaði ekki … satt að segja gat ég ekki hugsað mér að vinna hjá einhverju fyrirtæki, kannski með leiðinlegan yfirmann, og því ákváðum við að taka lán hjá  bankanum og  hjá vinum okkar og fjölskyldu til að opna jazzbar. Á þessum árum hlustaði ég mikið á jazz og mér þótti fýsilegt að skapa minn eigin vinnustað þar sem ég gat hlustað á uppáhalds tónlistina mína allan daginn. Á barnum skyldi boðið upp á kaffi, drykki og smárétti og jazztónlist. Okkur tókst að skrapa saman nógu miklum peningum til að opna barinn í góðu húsnæði við Kokubunji lestarstöðinai í vesturhluta Tokyo. Fljótlega varð barinn nokkuð vinsæll. En vandinn var sá að við skulduðum óhemju háar fjárhæðir í mínum augum svo við urðum að vinna frá morgni til kvölds, spara og lifa af mikilli nægjusemi, sofa í kaldri íbúð með köttunum okkar og neita okkur um flest. Fyrsta árið tókst okkur að borga áætlaðar afborganir til vina og banka. Tíminn leið og við ströggluðum við reksturinn og unnum  baki brotnu. Ég hef ekkert á móti því að leggja hart að mér. En þrátt fyrir fórnir og strit rann upp sá dagur að við áttum að borga nokkuð stóra afborgun til bankans en allir sjóðir voru þurrausnir. Við sáum enga leið til að greiða bankanum það sem mundi gjaldfalla daginn eftir. Ég man að við gengum ansi niðurlút heim á leið þetta kvöld eftir að við höfðum lokað barnum. Það rigndi jafnmikið og það rignir nú. Allt var fremur dapurlegt og satt að segja þótti mér tilveran harla vonlaus. Ég var dauðhræddur um að bankinn mundi taka barinn af okkur. Þetta voru hugsanir mínar þegar ég beygði þungur og þreytturi inn götuna þar sem við bjuggum. Álengdar sá ég einn af köttunum okkar sitjandi undir ljósastaur þannig að geisli götuljóssins lýsti hann upp í kvölddimmunni. Það var engu líkara en að hann væri að bíða eftir okkur. Augu kattarins,  sem var svartur eins og nýlagt malbik, glóðu í myrkrinu. Við gengum í átt til hans en hann sat grafkyrr. Og nú kemur hið ótrúlega, Við fætur kattarins var þykkt búnt af peningaseðlum sem hafði verið rúllað í vöndul  og seðlunum haldið saman af teygju. Þarna lágu þessi mikli peningavöndull við fætur kattarins.“

Ég man að þegar Murakami var kominn á þennan stað í sögu sinni sveigði ég bílnum inn í bílastæði við hótelið en Murakami leit á konu sína sem sat í aftursætinu og spurði hana hvort við ættum ekki að taka smá rúnt um Reykjavík á meðan hann kláraði söguna. Jú, það fannst frú Murakami tilvalið svo við keyrðum aftur af stað og ég tók stefnuna niður að höfninni í Reykjavík.

„Við tókum peningana upp, sem voru gegnblautir eftir langvarandi haustregn í Tókyó, og ég stakk þeim í vasann. Þegar við komum inn í íbúðina klippti ég teygjuna utan af seðlabúntinu, breiddi úr seðlunum á borðið. Okkur til mikillar undrunar samsvaraði upphæðin nánast upp á yen þeirri upphæð sem við áttum að borga bankanum daginn eftir. Og það gerði ég nánast án umhugsunar. Ég leit á peningafundinn sem merki til okkar. Ég tók seðlabúntið niður í bankann strax næsta morgun og borgaði skuld okkar. Í mörg ár hafði ég samviskubit yfir því að hafa ekki fært lögreglunni peningana, farið í tapað/fundið-deildina og skilað peningunum. En ég hugsaði samt með mér að það væru einmitt svona tilviljanir sem gæfu lífinu gildi. Öll þessi óvæntu atvik, allar þessar dularfullu ráðgátur sem við mætum í lífinu veita okkur minnisverðustu stundir lífsins. Líf mitt er fullt af þessum óvæntu atvikum sem hafa markað líf mitt. Ég hef alltaf tekið þeim fagnandi og leyft þeim að koma til mín. En einmitt þessi peningasending af himnum gerði það að verkum að við gátum rekið jazzbarinn áfram og komið undir okkur fótunum.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.