Póstkort frá Ítalíu

Rétt fyrir hádegi var hringt á dyrabjöllunni. Ég var einn heima og því þurfti ég að hlaupa niður tröppurnar– skrifstofa mín er ekki á jarðhæð – í gegnum stofuna (og aftur var hringt á dyrabjöllunni),  í gegnum eldhúsið, eftir ganginum og út í forstofu. Þegar ég náði að opna dyrnar var ég eiginlega viss um að ég hefði verið of seinn á fæti  – stirður eftir langt morgunhlaup – til að opna fyrir manninum sem hringdi tvisvar á dyrabjölluna og hann hlyti að vera horfin á braut.

En svo var ekki. Á tröppunum fyrir utan dyrnar stóð gleiðbrosandi maður með stórir hvítar kanínutennur. Hann hafði klæðst rauða póstjakkanum sínum í dag – enda kalt í veðri. Um leið og ég birtist í dyragættinni lyfti hann hægri hendinni og veifaði framan í mig póstkorti.

„Góðan daginn, íslenski maður,“ sagði hann og flissaði og hélt áfram að veifa kortinu. „Sjáðu hvað ég færi þér. Póstkort sem hin alþjóðlega póstþjónusta hefur flutt alla leið frá Ítalíu. Kortið var skrifað þann 4. júlí 2022 og flutningurinn hefur því tekið 129 daga.“ Nú hló póstdrengurinn. „Ég reiknaði dagafjöldann út í morgun þegar ég sá dagsetninguna á póstkortinu.“

Ég tók við kortinu og  sá að myndin á annarri hlið póstkortsins var ein af þessum dæmigerðu ítölsku ljósmyndum af gömlum litlum bíl, á leið inn þrönga götu. Myndin er tekin frá einskonar sölutorgi því það eru sölubásar og í röðum í bakgrunni myndarinnar. Ég sé strax að það eru seld blóm, grænmeti, egg, hunang og ólífur á þessu torgi. Á hinni hlið kortsins eru skrifaðar þrjár línur með svörtum penna. Fyrst datt mér í hug að Óskar Árni hafi sent mér hæku.

björt júlínótt – 
lotinn yfir
ársreikningunum

Þetta var ekki póstkort frá Óskari Árna ég var fljótur að átta mig á því. Ég flýtti mér að þakka póstdrengnum fyrir sendinguna og lokaði dyrunum áður en ég gat byrjað að einbeita mér að kveðjunni sem skrifuð var á póstkortið og hafði tekið þennan óratíma að berast mér. Svo óheppilega vildi til að einhvers staðar á þessari lögnu leið milli Porto Santo Stefano á vesturströnd Ítalíu og Espergærde hafði augljóslega rignt á póstkortið svo blek pennans sem notaður hafði verið til að skrifa kveðjuna til mín hafði lekið til svo stafirnir voru bæði óskýrir og ólesanlegir.

Mér hefur enn ekki tekist að stauta mig fram úr línunum þremur, enda hef ég ekki gefið mér langan tíma til þess. En það sem verra er, ég hef ekki hugmynd um hver sendandinn er. Mér sýnist undirskriftin vera G.Í.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.