Meistaraverk! Meistaraverk?

Ég frétti mér til nokkurrar undrunar að ný skáldsaga eftir Guðna Elísson væri komin út á íslensku. Já, ég segi undrunar því ég átti ekki von á bók frá bókmenntaprófessornum fyrir þessi jól. Bókin hafði gersamlega farið fram hjá mér; ég vissi ekkert um bókina og ég kom algerlega af fjöllum þegar mér var sagt frá því í gærkvöldi að Hallgrímur Helgason, rithöfundur og áhrifavaldur, hefði kallað bókina, sem heitir Brimhólar, „meistaraverk“ í færslu á einum af þeim samfélagsmiðlum þar sem hann stundar að skrifa hugleiðingar sínar (ég man ekki hverjum). Orðið meistaraverk er í mínum huga gífurlega stórt orð. Ég hoppaði þess vegna  upp úr stólnum mínum þegar ég heyrði orðið notað til að lýsa Brimhólum Guðna og vissi að ég yrði ekki rólegur fyrr en ég hafði komið höndum yfir þetta ætlaða meistaraverk. Það er nefnilega ekki svo oft sem alvöru meistaraverk eru sköpuð í þessum heimi og ekki vil ég láta þau framhjá mér fara loksins þegar þau birtast. Ég tók því í skyndi fram tölvuna mína  og ætlaði samstundis að kaupa bók Guðna Elíssonar bókmenntaprófessors. En þar sem ég bý í útlöndum og því engar íslenskar bækur fáanlegar hér, hvorki í bókabúðum né stórmörkuðum, verð ég að láta mér nægja að næla mér í rafbækur ætli ég að svala forvitni minni og lesþorsta í skyndi. Gallinn er sá að Brimhólar fæst einungis prentuð á pappír og bundin inn í hörð spjöld.

Ég var því í töluverðu uppnámi í gærkvöldi þegar ég heyrði af nýprentuðu meistaraverki og komst að raun um að það var ómögulegt að fá það samstundis í hendur í gegnum rafbrautir himins, rafský og rafkapla hingað til hins stóra útlands. En það leið ekki langur tími þar til ég var aftur orðinn rólegur. Mér hafði tekist að róa hugann því ég minntist þess að ég hafði einu sinni áður brennt mig á nákvæmlega sömu upphrópun frá nákvæmlega sama rithöfundi. Í fyrra, ég held að það hafi verið í fyrra, kannski varð það árið þar á undan,  frétti ég nefnilega að Hallgrímur Helgason hefði kallaði ljóðabók Bubba Morthens sem þá var nýútkomin, meistaraverk. Það vildi svo til að ég var staddur á Íslandi, meira að segja í höfuðstaðnum,  þegar ég heyrði um þessa einkunnargjöf Hallgríms á bók hins fræga tónlistarmanns. Ég gat því án tafar arkað af stað út í bókabúðina Eymundsson við Skólavörðustíg og keypt bókina. Ég hrósaði stórkostlegu happi og keyrði kampakátur heim á leið með nýfengna bók í farþegasætinu við hliðina á mér.

En þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að opna bók  Bubba, þetta úthrópaða meistaraverk, og lesa það spjaldanna á milli. Ég segi það bara strax og formálalaust: ég varð fyrir vonbrigðum, því ég skynjaði að þótt maður geti sagt margt gott um bók Bubba Morthens þá var bókin, í mínum huga, ekki það sem ég kalla meistaraverk. Þegar ég rifjaði upp þessa kvöldstund með bók Bubba í höndunum varð ég rólegri yfir því að geta ekki læst tönnunum tafarlaust  í skáldsögu bókmenntaprófessorsins. Mér þótt allt í lagi að bíða nokkra daga með að lesa hana. Ég kem til Íslands síðar í vikunni og þá get ég nælt mér í bókina í ró og næði; lesið hana í ró og næði. Nú er ekkert óðagot. Ég veit ekki hvort tilfinning mín sé rétt en mig grunar að Hallgrímur sé kannski aðeins örlátari en ég í úthlutun á einkunninni meistaraverk fyrir skáldsögur. Mér finnst afar fáar bækur geti fyllt þann flokk.

En ég nefndi það í upphafi að það hefði komið mér á óvart að Guðni hefði sent frá sér bók nú á vetrardögum ársins 2022. Sennilega á undrun mín rætur að rekja til samskipta okkar Guðna frá því í sumar. Kannski sýnir undrun mín betur en nokkuð annað afstöðu mína til heimsins, sem stundum er mótuð af töluvert ógáfulegu sakleysi.

Í júní, þegar sólin var hátt á lofti og grasið grænt, fékk ég pata af að prófessor Guðni sæti við skriftir og von væri á nýrri bók eftir hann á haustmánuðum. Mér þótti þetta forvitnilegt og í ljósi þeirrar athygli sem Ljósagildran (fyrri bók Guðna) fékk í fyrra,  ákvað ég að skrifa Guðna. Þótt ég þekki bókmenntaprófessorinn afskaplega lítið – við höfum stundum spjallað stuttlega saman á opinberum stöðum – treysti ég því að hann tæki erindi mínu ekki illa því að baki var ekki annað en góður vilji. Ég skrifaði sem sagt tölvupóst þar sem ég sagði meðal annars:

„ … Nú ryðst ég fyrirvaralaust inn í líf þitt, þú fyrirgefur það vonandi.  En ég fálma bara eitthvað út
í loftið.  Þannig er að ég skrifa stundum dagbók á netinu
undir heitinu Kaktusinn og stundum hef ég leikið mér að því að
skrifa svolítið um bókmenntir og bókmenntalíf. Þetta eru óalvarleg
og kæruleysisleg skrif. Hugmyndin hjá mér er bara – því það er töluverður hópur
sem les Kaktusinn – að skapa vettvang þar sem aðeins er fjallað um
bókaútgáfu á Íslandi og í útlöndum; vekja áhuga á væntanlegum eða útkomnum
bókum, skemmta áhugafólki með stuttum fréttum af útgáfunni osfrv.
Eiginlega er hægt að segja að
hvergi sé skrifað um bókmenntir á íslensku. Íslensku dagblöðin eru
meira og minna hætt að sinna bókmenntaumfjöllun eða umfjöllun um
bækur og þetta hefur þau vondu áhrif að mínu mati að bókmenntir og bóklestur
verður enn fjarlægari en hann er þegar orðinn. Á endanum lognast allt bókalíf
út af. Ég ætla mér alls ekki að bjarga íslenska bókamarkaðinum – enda ekki í stakk búinn til þess –
heldur langar mig að reyna að skemmta
þeim sem enn hafa áhuga á þessu sviði mannlegs samfélags.
Þetta var formálinn.  Nú spyr ég þig frétta. Ég heyrði út undan mér að væntanleg væri ný bók eftir þig í haust, ástarsaga.
Er þetta rétt og nennirðu að segja mér aðeins frá þessu verki? Ég er ekki að biðja um fréttatilkynningu
heldur bara eitthvað skemmtilegt og véfréttalegt um væntanlega bók þína  – eitthvað sem gæti
glatt lesþyrsta Íslendinga sem fylgjast með Katusinum …“

Í stuttu máli svaraði Guðni með óskaplega vinsamlegu bréfi þar sem hann sagði í fáum orðum að alltof snemmt væri að tala um væntanlega bók. Ég reiknaði því með í sakleysi mínu að prófessorinn væri nýsestur við og mættu væntanlegir lesendur bíða í nokkur ár eftir að bókin yrði tilbúin til prentunar. Einmitt þess vegna – og þar sem ég er stundum óvenju barnalegur í hugsun – kom útgáfutími bókarinnar hans Guðna mér svona  á óvart.

dagbók

2 athugasemdir við “Meistaraverk! Meistaraverk?

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.