Afmælisbarnið í efasemdakasti

Í gær var 15. nóvember og þar með afmælisdagur dagbókarritara. Mér tókst þó ekki að finna ró til að setjast niður og skrifa í dagbókina þrátt fyrir góðan ásetning. Suma daga er maður ekki í stuði til að skrifa dagbók þó að maður hafi einsett sér að færa eitthvað til dagbókar á hverjum degi.

Á afmælisdegi mínum hafði ég satt að segja sest niður fyrir fram tölvuna, opnað dagbókina og skrifað setninguna „í dag er 15. nóvember og ég á afmæli.“ Lengra komst ég ekki. Ég sat og staðri út í loftið og velti fyrir mér hinu og þessu; hafði áhyggjur af að bókin mín væri ekki nógu góð og að enginn nennti að lesa hana, velti fyrir mér stöðu pundsins, stöðu forsætisráðherra Íslands …. En það er einmitt efinn sem maður þarf stundum að kljást við eftir að maður hefur skrifað bók og hún komin á búðarborð landsmanna. Vinur minn einn sem  skrifar líka bækur – en segist vera algjörlega hættur því – hringdi í mig um daginn þegar hann heyrði að ég var búinn að senda nýja bók í prentsmiðju. „Æ, Snæi! Af hverju ertu að þessu? Hvers vegna ertu að gefa út bækur? Það verður enginn glaður á því að gefa út bækur, hvorki höfundur né útgefandi. Skrifaðu bara bækur fyrir sjálfan þig og settu ofan í skúffu eða brenndu handritið þegar þú ert búinn að skrifa bókina til enda. Í stað þess að senda bókina til útgefanda áttu bara að brenna handritið, kveikja í því og búa til stórt bál. Njóttu þess að sjá orðin og setningarnar fuðra upp í himininn. Það veitir þér miklu meiri gleði en að gefa bókina út. Þekkirðu einhvern sem hefur orðið glaður af því að gefa út bækur?“

Svona lætur vinur minn. En ekki kæmi mér á óvart að á næsta ári birtist ný bók eftir hann á borðum bókabúðanna. En hvað um það í stað þess að skrifa dagbókarfærslu dagsins sat ég bara eins og auli og starði út í loftið. Til að koma hreyfingu á heilann og aðra líkamsparta greip ég bókina Konan með hundinn eftir Tsjekhovs sem af einhverjum ástæðum lá í bókabunka á borðinu mínu. Ég fletti upp á titilsögunni.  Tsjekhov sem fæddist árið 1860 varð bara 44 ára gamall en hann dó úr berklum sem hann krækti sér í þegar hann, ungur maður, stundaði nám í læknisfræði í Moskvuháskóla. Konan með hundinn – sagan birtist fyrst árið 1899  – var eitt af síðustu verkum sem hann kláraði fyrir dauða sinn. Sagan er ansi góð.

Ég gaf út smásagnasafn Tsjekhovs, Konan með hundinn,  árið 1998. En þá var ég einmitt íslenskur forleggjari. Ég hafði fengið Árna Bergmann í lið með mér og lokkað hann til að þýða sögurnar. Ég held að Lena kona hans hafi verið honum innan handar. Mér þótti sérlega gott að vinna með Árna og gaman að heimsækja þau hjónin Árna og Lenu í Álfheimana, Það var alltaf svo mikið flug á honum og hann var svo ákafur að deila þeim hugmyndum sem flögruðu um í kolli hans einmitt þegar mann bar að garði. Þegar ég hugsa um bókina og útgáfuna núna er ég eiginlega  stoltur af því að hafa gefið þetta smásagnasafn út og ég er glaður að hafa kynnst Árna Bergmann.

ps. Það var frekar gott á mig að í gærkvöldi, eftir allt mitt innra volæði yfir því að hafa skrifað bækur, barst mér bréf í gegnum samskiptaforritið messenger undir yfirskriftinni: „Minn fyrsti bókadómur“. Titill bréfsins var ekki úti í loftið því höfundur bréfsins segir frá því í inngangsorðum sínum að þetta sé í rauninni í fyrsta skipti sem hún skrifi ritdóm. Bókadómurinn fjallar einmitt um glæpasöguna Eitt satt orð sem mér hafði þótt svo ómöguleg fyrr um daginn en þar var þessi góði ritdómari ekki alveg sammála mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.