Nú er ég á leið til Íslands. Flugvélin hér á Kastrupflugvelli er að taka bensín svo hægt sé að flytja mig og hina farþegana alla leið á áfangastað í Keflavík. Mín bíða allskonar samkomur til að kynna Eitt satt orð-bókina. Strax í kvöld klukkan átta – ég vona að Reykjanesbrautin sé opin – á ég að vera á bókasafninu í Kópavogi. Ég hef verið svolítið órólegur síðustu daga og kenni ég þessari væntanlegu Íslandsferð um óróan. Þótt ég sé ekki beint stressaður yfir að þurfa að tala yfir fólki sem kemur og vill heyra um bókina mína þá er í mér það sem kallast performance-angst. Ég verð að standa mig og ég nota töluverða orku til að undirbúa mig, ekki meðvitað, heldur bobblar og suðar stöðugt í hausnum á mér án þess að ég taki almennilega eftir því. Ég er auðvitað hálfgerður byrjandi í því að kynna bækur. Ég fékk ekki tækifæri til þess að kynna barnabækurnar þrjár sem ég skrifaði að neinu viti þegar þær komu út. Það er því alveg ný reynsla þegar einhver hringir í mig eða skrifar mér og spyr hvort ég vilji koma og tala um bók.
Allt þetta eirðarleysi hefur komið niður á lestrarafköstum mínum. Ég hef ekki sálarfrið til að lesa. Þó las ég smásögur Tsjekhovs aftur í gær (ég hafði lesið þær í fyrradag líka). Sennilega dregst ég að smásögum Tsjekhovs vegna þess að ég skynja hvað sögurnar eru góðar en ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað grerir þær svona góðar. Ég les því hægt og velti hverri málsgrein fyrir mér. Á morgun ætlar George Saunders að skrifa um Konuna með hundinn á georgesaunders-vefnum. Ég hlakka til að sjá hvað hann hefur að segja um söguna.
Konan sem situr á móti mér hér í biðsalnum les bók. Ég held að hún sé Íslendingur og því er ég svolítið spenntur að sjá hvaða bók hún er að lesa. En það er eins og hún vilji ekki sýna forsíðu bókarinnar og það er sama hvernig ég halla mér, sný mér og beygi mig niður … einhvern veginn tekst henni alltaf að snúa bókakápunni þannig að ég sé ekki hvaða bók hún hefur valið til að stytta sér stundir á flugleiðinni milli Danmerkur og Íslands. Áður en mér tókst að klára að skrifa síðustu línu lokaði konan bókinni og flutti sig annað í salnum (kannski til að geta lesið í friði fyrir mér). Þetta er laumubók sem hún les.