Ómur úr fjarska

Nóttin er að baki. Ég vaknaði einn í algjöru myrkri. Þykkur svartur veggur umlukti mig þar sem ég lá undir heitri sænginni. Ég hefði allt eins getað haft augun lokuð. Klukkan var ekki enn orðin sex en mér fannst ég hafa sofið nóg.  Ég fann að ég glaðvakandi en lá þó um stund kyrr í myrkrinu. En þegar ég steig framúr rúminu og leit út um gluggann sá ég ljós frá húsunum handan fjarðarins. Ég opnaði dyrnar út á verönd og fann hvernig svalt morgunloftið streymdi inn um dyrnar. Það er brakandi ferskt og hressandi þessi kaldi gustur frá Hvalfirðinum. Hvergi lifandi sála hér í kring. Auðvitað synda fiskar inn og út um fjörðinn, sennilega hvíla selir sig á skerjunum, en rjúpurnar, sem eru svo margar hér í birkihlíðinni, voru augljóslega enn í fasta svefni. Það var algjör þögn þegar ég stóð í dyragættinni. Það var ekki einu sinni þytur í stráum eða lækjarhjal. Ég horfði út í dimmuna og það var eins allt væri ofurselt þögninni. En þegar ég lagði betur við hlustir greindi ég þungan dyn, eins og í fjarska væri þung umferð bíla. Það eru að minnsta kosti 10 km út á þjóðveg númer eitt og klukkan sex á morgni aka ekki margir bílar eftir veginum. En lágur og dimmur dynurinn var greinilegur.

Ég fór að hugsa um gærkvöldið. Ég hafði verið boðaður til að taka þátt í dagskrá á Bókasafni Kópavogs og lesa upp úr bók minni og taka þátt í umræðum um bókina. Tveir aðrir rithöfundur höfðu líka fengið þetta sama boð og ég; þau Elísabet Jökulsdóttir og Dagur Hjartarson. Fjöldi fólks kom til að hlusta á okkur þremenningana sem sögðum frá bókunum okkar og svöruðum spurningum mjög geðugrar konu, Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur, sem ég hef ekki hitt fyrr en mér heyrist að hún sé öllum Íslendingum kunn enda hafi hún verið einn af stjórnendum Kastljóss sjónvarpsins í mörg ár. Guðrún Sóley var afar vel undirbúin og það var mjög gaman að hlusta á Elísabetu og Dag segja frá bókum sínum, þau voru glöð,  gerðu að gamni sínu og áheyrendur virtust skemmta sér vel.

En sem sagt þegar ég stóð þarna í dyragættinni á húsinu mínu í Hvalfirðinum og andaði að mér morgunloftinu, rifjaði ég upp kvöldstundina með skáldunum. Niður aldanna, kallar Dagur látlausan óminn sem umlykur Reykjavík og kannski heiminn allan í bók hans, Ljósagangur.  Í meðförum Dags (hann las upp í gær) hljómar tónninn einhvern veginn svona: „úhhúúú“. En dynurinn sem ég varð vitni að hér í Hvalfirðinum var miklu líkara „öhöhöhöhöhöhöh“. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ef Dagur veit hvernig niður aldanna hljómar þá varð hljóðið sem ég greindi í morgun eitthvað annað en niður aldanna. Ég er enn að hugsa hvaða greinilegi ómur berst hingað inn Hvalfjörðinn í morgunþögninni. Kannski er þetta samtal einhverra sjávardýra sem synda inn og út djúpan fjörðinn? Eiga hvalirnir sér ekki eitthvert samskiptahljóð?

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.