Tímabjartsýni

Í dag klukkan tvö á ég að mæta á dagskrá hjá bókmenntahátíðinni Iceland noir. Ég er óvenju stressaður á að koma þarna fram. Eignlega er ég ekki lengur sérlega áhyggjufullur yfir að standa á sviði og tala við fólk eða mæta í viðtöl í útvarpi eða sjónvarpi en fyrir þessa dagskrá sem fer fram á ensku er ég nokkuð órólegur. Í fyrsta lagi yfir því að þurfa að tala ensku á sviði. Ég er vanur að tjá mig á útlensku og allan minn starfsferil hef ég þurft að eiga samskipti við alls konar útlendinga þá sérstaklega á ensku. En það er orðið langt síðan að ég hafi þurft að tjá mig í lengra máli á þessu fína og fallega tungumáli. Mér finnst ég töluvert ryðgaður. Í öðru lagi á þessi sviðsumræða sem ég tek þátt í ekki sérstaklega vel við mig; að fjalla um „plot“ og „plot twist“ og mér finnst ég ekki hafa sérlega mikið fram að færa um þetta efni. Sjálfur skipulegg ég sjaldan í smáatriðum framvindu sögu sem ég skrifa. Mér finnst skrif mín frekar líkjast því að ganga af stað inn í þéttan skóg og ætla mér að finna leið milli allra trjánna yfir runna og lággróður, eða eftir stígum sem sumir leiða mann í hring  eða leiða mann á allt annan stað en maður áætlaði … þannig líður mér oft þegar ég skrifa. Ég veit sem sagt ekki hvar ég enda þegar ég hef ferðalagið með pennann og því er ég vonlaus plottari.

Úr því að ég er fremur órólegur yfir þessari dagskrá hef ég skrifað hjá mér tímaáætlun fyrir bæjarferðina. Einn af mínum persónugöllum er svolítið tíma-óraunsæi, tíma-bjartsýni, því ég áætla mér alltaf of skamman tíma til að komast á milli staða eða til að leysa verkefni. Ég held alltaf að allt taki styttri tíma en það tekur í raun og veru. Þótt ég kalli þetta tímabjartsýni vilja sumir nota orðið óstundvísi. Sjálfur hef ég frekar mikla óþolinmæði gagnvart þeim sem mæta ekki á umsömdum tíma. En nú hef ég skrifað nákvæma tímaáætlun fyrir daginn til að róa mig:
14:00 Iceland noir í Fríkirkju
13:30 Mæting á Hótel Saga
12:30 Lagt af stað frá Hvalfirði.

Þar sem ég erindi í Reykjavík í dag hef ég ákveðið að kaupa bók Guðna Elíssonar, Brimhólar, og sjá hvort ég falli svo flatur fyrir sögunni að ég geti kallað hana meistaraverk. Það yrði nú saga til næsta bæjar því ég man satt að segja varla eftir íslenskri bók sem ég get sett í básinn meistaraverk. Kannski örfáar. Sumar þeirra las ég fyrir langa löngu og þótti þær að lestri loknum algjör meistaraverk. Þessar bækur hafa fylgt mér síðan. Ég veit ekki hvað mér fyndist um þær ef ég læsi þær nú svona mörgum árum síðar. Ein bók er mér sérstaklega minnisstæð: Splunkunýr dagur eftir Pétur Gunnarsson sem kom út árið 1973 eða þegar ég var barn. Ég keypti bókina árið sem ég byrjaði í menntaskóla og bókin fylgdi mér í gegnum fyrstu menntaskólaárin. Ég man að ég vélritaði upp nokkur af ljóðum bókarinnar og hengdi upp á vegg í herberginu mínum svo mikil var hrifningin. Svo sannarlega var ég sannfærður um að ljóðabókin Splunkunýr dagur væri ótvírætt meistaraverk. Bókina hef ég ekki lesið síðan ég var menntaskólanemi og eiginlega þori ég ekki að taka bókina aftur fram. Ég er of hræddur um að eyðileggja þær góðu minningar sem ég á í kringum lestur minn á bókinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.