Tímaáætlun bókaskrifarans

Nú þegar ég hef svo mörg stefnumót (á minn mælikvarða) finnst mér betra að skrifa niður einfalda tímaáætlun fyrir ferðir mínar og fundi svo ég komi á réttum tíma (eða koma að minnsta kosti ekki of seint) og klúðri ekki neinu. Í dag á ég að vera á tveimur stöðum vegna bókarinnar og þarf að vera kominn til Reykjavíkur eða í Efstaleiti klukkan 11:40 en áður en það gerist ætla ég að hlaupa 10 km. Ég er fyrir löngu vaknaður en hef ekki komið mér út í hlaupagallanum því enn er bæði þykkt myrkur og töluverð rigning. Ég hinkra með hlaup því enn er sveigjanleiki innan fyrsta tímarammans 😉

12:40 RÚV
11:40 Af stað frá Hvalfirði
10:40 Sturta
09:30 Af stað í hlaup á þjóðvegi 47, Hvalfjarðarvegi.

Mér tókst að komast klakklaust í gegnum hina svokölluðu panel-umræðu í Fríkirkjunni í gærdag. Ég hafði verið óvenju stressaður yfir að þurfa að taka þátt í umræðum eitthvað sem ég hafði ekki neitt sérstakt vit á (plots and plot twists) en glæpahöfundarnir sem sátu með mér á sviðinu reyndust bæði skemmtilegt fólk og viðkunnanlegt og gerðu mér auðvelt að taka þátt í umræðunni. Sérstaklega þótti mér gaman að ensk-indverska rithöfundinum Abir Mukherjee sem var fyndinn og vænn.

Seinnipartinn í dag keyri ég austur í Rangárþing. Lokahóf Iceland Noir er haldið á Hótel Rangá og ég er boðinn þangað. Mér þótti þetta gífurlega rausnarlegt boð fyrir mitt litla framlag. Þótt ég enginn sérstakur lokahófsmaður fannst mér ég ekki geta annað en þegið boðið. Verst þótti mér að heyra að sessunautur minn frá panel-umræðunum Abir Mukherjee komi ekki þar sem hann flýgur aftur til Englands í dag. Ég hefði viljað kynnast manninum betur.

Ég hef líka hugsað mér að vitja grafreit foreldra minna sem eru jörðuð í Oddakirkjugarði sem er aðeins í um tíu mínútna akstursleið frá Hótel Rangá.

ps Seinnipartinn í gær fannst mér ég þurfa að undirbúa mig fyrir útvarpsupptöku sem er á mánudaginn þar sem ég á að tala um þær bækur sem ég er að lesa eða hef verið að lesa. Ég er langt komin með fína bók Guðrúnar Evu Útsýni sem ég ætla að tala um. Ég sökkti mér því niður í bók Evu til að klára hana fyrir útvarpsútsendinguna. Ég hafði verið að lesa bók Jóns Kalmans (setti hana á pásu) og hef bók Siggu Hagalín á borðinu en mér fannst hálfasnalegt að tala um bækur fólks sem ég er í miklum persónulegum samskiptum við. Fátt er eins hallærislegt en að skjalla bækur vina sinna á opinberum vettvangi. Það verður svo ótrúverðugt. Ég vel því að taka bók Guðrúnar Evu með mér og bækur höfunda sem ég er ekki í nánum samskipum við.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.