Forlagið sem enginn á

Í fyrrakvöld var mér boðið í lokahóf Iceland Noir-bókmenntahátíðarinnar á Hótel Rangá þar sem flestir hátíðarþátttakendur fögnuðu lokum vel heppnaðrar hátíðar. Ég frétti, það sem ég vissi ekki fyrir, að hingað komu hátt í þrjúhundruð gestir frá útlöndum  – og keyptu aðgöngupassa – til að hlusta á glæpasagnahöfunda fjalla um verk sín. Öll framkvæmd og skipulagning hátíðarinnar hvílir á sjálfboðaliðsvinnu Ragnars Jónassonar, Yrsu Sigurðardóttur og fleiri. Maður getur ekki annað en dáðst að framtaki þessa fólks og harmað í leiðinni, að þær deilur sem Twitter-skilaboð SJÓNS ollu, skyldu skyggja á hátíðargleðina.

Á lokahátíðinni varð ég var við að gestir ræddu töluvert um jólabókaflóð, bókagagnrýni og stöðu íslensku bókaforlaganna … og auðvitað um Twitter-útspil SJÓNS sem ekki vakti sérstaka gleði meðal gesta. Venjulega er ég  fjarri iðu atburðanna þar sem ég sit í útlöndum í mínum útlenska stól, í útlensku herbergi og með útsýni yfir útlenskt sund og því var margt nýtt að heyra um afstöðu höfunda og annarra sem þekkja til íslenska markaðarins.

Ég heyrði ekki betur en að sú skoðun væri ríkjandi að þörf væri á endurnýjun bæði hjá forlögum og hvernig fjallað er um bókmenntir í landinu. Sérstaklega þótti þessu ágæta fólki að gera þyrfti eitthvað til að hefja bókmenntagagnrýnina upp á hærri stall.

Eftir að hafa hlustað á þessar samræður datt mér í hug að kannski væri komið að því að breyta starfsemi Bókmenntafélags Máls og menningar til að hrinda af stað endurnýjunarferli. Hluti af þeim breytingum væri að gera eignarhald Forlagsins virkara og efla á þann hátt stærsta forlag lands. Nú er Forlagið í eigu Bókmenntafélags Máls og menningar sem enginn á. Því má segja að enginn eigi Forlagið og mig grunar að þetta eignarhaldsform gæti verið Forlaginu fjötur um fót. Ég kíkti í gamni á fyrirtækjaskrá til að sjá hverjir væru skráðir eigendur Máls og menningar og í ljós kemur að í skrá Skattsins stendur: „stjórn skráð sem eigendur“. Í stjórn Máls og menningar (og því skráðir eigendur) eru hið góða fólk: Halldór Guðmundsson, formaður stjórnar, Anna Einarsdóttir (fyrrum verslunarstjóri bókabúðar Máls og menningar) Árni Einarsson (fyrrum framkvstj. Máls og menningar), Sigþrúður Gunnarsdóttir (ritstjóri hjá Forlaginu) og Örnólfur Thorsson (fyrrum forsetaritari). Þetta er allt mikið úrvalsfólk og hæfileikaríkt en mig grunar að fyrirtækjarekstur sé ekki þeirra helsti styrkleiki. Bókmenntafélag MM er eignarhaldsfélag og hefur það að markmiði að efla bókmenntalíf í landinu, eða eins og ég hef einhvers staðar lesið: „að koma bókum á íslensku á framfæri við sem flesta lesendur á hagstæðum kjörum“.

Eins og staðan er í dag verð ég að efast um að rekstur bókaforlags sé besta leið sjálfseignarstofnunarinnar til að ná þessu háleita markmiði sínu. Í gærmorgun á leið minni heim frá Hótel Rangá fór ég því að hugsa um hvort ekki væri mun viturlegra fyrir  sjálfseignarfélagið, sem MM er, að selja Forlagið til fólks sem telur sig geta rekið bókaforlag bæði með fjárhagslegum- og menningalegum hagnaði. Á þann hátt losna fjármunir sem Bókmenntafélag MM gæti notað til styrkja einstök brýn bókmenntaverkefni sem hafa beinlínis jákvæð áhrif á bókmenntalíf í landinu. Hins vegar væri Forlaginu, sem útgáfufélagi, kannski gerður greiði með því að fá virka eigendur sem sjá hag sinn í að fyrirtækið vaxi og dafni. Ég held að núverandi eignarform Forlagsins heyri til horfinna tíma. En svo er auðvitað önnur spurning hvort einhver vilji eiga Forlagið?

ps. Ég lagði snemma af stað frá Hótel Rangá þótt ég hefði farið seint að sofa. Ég átti stefnumót í Reykjavík fyrir hádegi. En á leið minni til Reykjavíkur tók ég á mig örlitla lykkju og nam staðar við kirkjugarð Oddakirkju. Svona snemma morguns er dagurinn alls ekki vaknaður. Sólin er stödd annars staðar í heiminum og langt í að hún komi til að lýsa veginn fyrir árrisulum Íslendingi. Ég átti því í nokkrum erfiðleikum með að rata um kirkjugarðinn í myrkrinu og finna leiði foreldar minna sem ég  var kominn til að vitja. Auðvitað fann ég leiðið á endanum  og dvaldi þar skamma stund á meðan ég minntist foreldar minna og alls þess góða sem þau gáfu mér.

dagbók

Ein athugasemd við “Forlagið sem enginn á

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.