Eiginlega varð ég bæði hissa og upp með mér þegar mér var boðið að koma fram á höfundakvöldi Bókasafns Seltjarnarness ásamt Pétri Gunnarssyni, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem fram fór í gærkvöldi. Stjórnandi kvöldsins var lektorinn Huldar Breiðfjörð. Mér þótti ég í einstaklega fínum félagsskap. Það var gaman að sitja þarna – nú orðinn bókahöfundur –með Guðrúnu Evu og Huldari en bækur þeirra gaf ég út í mörg ár þegar ég var bókaútgefandi hjá Bjarti. Mér þótti skemmtilegt að vera á bókasafnskvöldinu með Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Hún verkar á mig sem áhugaverð kona. Ég hef nokkrum sinnum verið spurður að því hvort Bergþóra sé dóttir mín en það er hún ekki. Ég veit ekki hver nafni minn pabbi hennar er. Og síðast en ekki síst þótt mér meira en frábært að lesa með Pétri Gunnarssyni þeim mikla heiðursmanni.
Árið 1997 gaf ég út þýðingu Péturs á bók Prousts Í leit að glötuðum tíma. Það var svo sannarlega eftirminnilegt fyrir ungan forleggjara að vinna með Pétri. Fáir Íslendingar skrifa jafn fallega og Pétur. Íslenskan hans er svo full af lífi, allar setningar sprikla af orku og fjöri. Slík tök á tungumálinu sér maður ekki víða.
Í ár, eða nú í nóvember, eru 100 ár frá dauða Marcel Proust sem fæddist árið 1871. Enginn vildi í upphafi gefa út fyrsta bindi bókarinnar Í leit að glötuðum tíma og greiddi Proust sjálfur fyrir útgáfuna sem var prentuð árið 1913. Annað bindi kom síðan út hjá Gallimard og fékk hin virðulegu Goncourt verðlaun og allir skyldu að með skrifum sínum væri Proust að afreka eitthvað mjög eftirtektarvert.
Proust skrifaði Í leit að glötuðum tíma liggjandi í rúminu sínu og má segja að hann hafi unnið óaflátanlega að samningi bókarinnar frá árinu 1908 og fram til dauðadags árið 1922. Síðasta bindi verksins kom út eftir dauða höfundarins árið 1927.