„Rödd íslenskrar menningar“

Ég var í bókamessunni í Hörpu í fyrradag og hitti marga eins og ég sagði frá í gær. Auðvitað minntist ég ekki á alla sem ég rakst á og mér hefur verið bent á það að ég hafi gleymt að minnast á suma. Sorry! En það er ekki vegna þess að þau samtöl hafi verið ómerkilegri en önnur mér fannst bara ekki ástæða til að nefna fólk sem ég hitti oft utan bókamessunnar. En ég fékk lika nokkra opinberun í gær. Ég hafði hitt Kristján B. Jónasson á messunni og ég tók eftir því þegar hann heilsaði mér og kvaddi um leið Kolbrúnu Bergþórsdóttur  (en þau höfðu staðið á spjalli þegar okkur Sus bar að) með orðunum: „Ég var að fá statusinn á ástandinu,“ sagði hann og nikkaði til Kolbrúnar. „Kolla er auðvitað rödd íslenskrar menningar eða rödd íslensks bókalífs.“

Já, þetta er örugglega rétt hjá Kristjáni B. Jónassyni. Síðast liðin 30 ár hefur rödd Kolbrúnar oft – sérstaklega í nóvember og desember – verið afgerandi varðandi líf og dauða bóka sem koma út fyrir jól. Kolbrún er ávalt fótgangandi (á meðan aðrir keyra um í lokuðum bensínfákum) og hve oft hefur maður ekki rekist á hana þar sem hún er á tali við fólk á göngu sinni upp eða niður Laugaveginn, eða fyrir utan bókabúð Eymundssonar í Austurstræti. Á spjalli sínu er hún vön að gefa þeim bókum sem hún hefur þefað af einkunnir; oft með þungum tilfinningarlegum rökum. Síðustu ár hefur rödd hennar orðið enn sterkari, sérstaklega eftir að hún fékk  Kiljuna (sjónvarpsþáttur) sem sitt gjallarhorn. Rödd íslenskrar menningar, eins og Kristján segir. Það er að minnsta kosti athyglisvert að velta því fyrir sér hve lengi Kolbrún hefur haldið þessari stöðu sinni. Ég er viss um að sumum finnst þessi kyrrstaða vond en öðrum finnst hún góð. Kannski hefði íslenskt bókmenntalíf gott af að fá nýjar, eða að minnsta kosti fleiri afgerandi raddir?

dagbók

Ein athugasemd við “„Rödd íslenskrar menningar“

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.