Ársuppgjör 2022.

Árið 2022 er liðið og tími uppgjöra er runninn upp. Hér er listi yfir mest lesnu dagbókarfærslur ársins ásamt stuttum skýringum á eðli og innihaldi þeirra dagbókarskrifa sem notið hafa mestra vinsælda … eða vinsældir eru kannski ekki rétta orðið heldur er námkvæmara að segja þeirra dagbókarskrifa sem notið hafa hvað mests lesturs.

  1. Meistarverk! Meistaraverk?
    Menn furða sig kannski á því að nákvæmlega þessi dagbókarfærsla skuli hafa verið sú færsla sem lesin var af flestum árið 2022. Ég get ekki komið auga á hvað það er sem rekur fólk inn á Kaktusinn til að lesa þessar vangaveltur mínar um hvenær bókmenntaverk  – eða hvaða listaverk sem er – geti talist meistaraverk. Ég er feiminn við orðið meistaraverk og nota það nánast aldrei. En það á ekki við um alla. Tíminn einn getur víst skorið úr um það hvaða listaverk lifa af og teljast meistaraverk og hvaða verk teljast dægurflugur og deyja fljótt.  Hallgrímur Helgason, rit- og myndlistamaðurinn, var yfir sig hrifinn af skáldsögu Guðna Elíssonar, Brimhólar, og hrópaði hástöfum á einhverjum af þeim félagsmiðlum sem Hallgrímur notar að bókin hans Guðna væri ekkert annað en meistaraverk. Ég hef áður heyrt Hallgrím nota þetta sama stóra orð yfir önnur verk, meðal annars um ljóðabók Bubba Morthens sem ég las skömmu eftir útkomu bókarinnar og í mínum huga náði hún ekki, þótt ágæt væri, þeim heiðurssessi að teljast meistaraverk. Ekki var greinin mín merkileg, en fólk þyrptist inn á Kaktusinn sennilega vegna þess að Hallgrímur taldi mig beita hann miklum órétti og talaði víst um það á opinverum vettvangi og förnum vegi. Einmitt það gerði fólk forvitið um hvaða orð útlaginn hefði leyft sér að nota til að hrekkja Hallgrím. Ég finn ekki orðin þrátt fyrir endurtekinn lestur en eitthvað mun hafa stuðað rithöfundinn.
    Persónur og leikendur: Hallgrímur Helgason, Guðni Elísson, Bubbi Morthens.
  2. Forlagið sem enginn á.
    Þetta er önnur grein sem vakti nokkuð fjaðrafok. Töluverður hópur fólks hafði samband við skrifara dagbókarinnar annað hvort til að skamma ritarann, lýsa yfir andstöðu við málflutninginn eða til að samsinna öllu því sem skrifað var. En í þessari stuttu grein setti ég fram þá hugmynd, sem mér þótti svolítið góð og það þykir mér enn, að Bókmenntafélag Máls og menningar seldi sinn hlut (100%) í Forlaginu og notaði sölupeningana í verkefni sem væru bókmenntum í landinu til framdráttar. Ég hélt því fram að Forlaginu væri betur borgið sem fyrirtæki, ef stjórn þess færi í hendur þeirra sem ég kallaði rekstrarfólk  og telur sig geta rekið bókaforlag bæði með fjárhagslegum- og menningalegum hagnaði. Sumum þóttu þetta hallærisleg skrif og gamaldags þar sem ég teldi kapítalískt rekstrarform væri það eina sem dyggði. Þar að auki væri Forlagið mjög vel rekið. En ef eitthvað er að marka þær laumulegu raddir sem tala í hálfum hljóðum þegar talið berst að Forlaginu þá er eins og sú skoðun sé útbreidd að fyrirtækið hafi átt undir högg að sækja síðustu árin sem framfaraafl í íslensku bókmenntalífi. Heyrði ég á tali mínu við rithöfunda og aðra sem fylgjast vel með í bókabransanum að nokkur deyfð væri yfir starfsseminni og þörf væri á því að gefa risanum svolítið vítamín. Sem sagt um þetta eru skiptar skoðanir.
    Persónur og leikendur: Halldór Guðmundsson, formaður stjórnar, Anna Einarsdóttir (fyrrum verslunarstjóri bókabúðar Máls og menningar) Árni Einarsson (fyrrum framkvstj. Máls og menningar), Sigþrúður Gunnarsdóttir (ritstjóri hjá Forlaginu) og Örnólfur Thorsson (fyrrum forsetaritari).
  3. „Rödd íslenskrar menningar.“
    Ég hafði hitt Kristján B. Jónasson á bókamessunni í Hörpu í nóvember og ég tók eftir því þegar hann heilsaði mér og kvaddi um leið Kolbrúnu Bergþórsdóttur  (en þau höfðu staðið á spjalli þegar okkur Sus bar að garði) með orðunum: „Ég var að fá statusinn á ástandinu,“ sagði hann og nikkaði til Kolbrúnar. „Kolla er auðvitað rödd íslenskrar menningar eða rödd íslensks bókalífs.“
    Persónur og leikendur: Kristán B. Jónasson, Kobrún Bergþórsdóttir.

  4. Þegar Murakami sérhannaði gestarúm fyrir Carver.
  5. Hjólað í suma aðra ekki.
  6. Rusl flýtur með straumnum.
  7. Ég þagga niður í sjálfum mér.
  8. … og fæ almennilegt fólk í lið með mér.
  9. Seðlabúnt í teygju.
  10. Frelsið kom með ítalska öskubílnum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.