Að finna gleði hjartans

„Ég hef náð þeim aldri að ég veit orðið að maður getur sóað árum í að þróa kvikmynd án þess að hún verði framleidd eða að hún verði endilega góð. Ég verð því að vera mjög varkár og passa mig á því að láta glepjast af hlutum eða verkefnum sem ég hef ekki brennandi áhuga á.“ Þessi orð Kazuo Ishiguro (sem hann segir í tengslum við nýja kvikmynd Living sem hann hefur skrifað handritið að) las ég í gærkvöldi og eins og margt annað sem þessi góði maður segir og skrifar hitti hann með orðum sínum beint í mark … það er að segja hjá mér. Að nota ekki orku sína eða tíma í hluti sem manni finnst í rauninni ekki sérstaklega mikilvægir. Eða eins og ég segi oft við sjálfan mig. Maður verður að hafa hjartað með í því sem maður gerir. Finna gleði hjartans í verkum sínum. Og það er einmitt vandi minn þessa dagana að ég finn ekki innilega hjartans gleði í þeim verkefnum sem ég hef tekið að mér.

Það er orðið langt síðan ég skrifaði síðast á Kaktusinn. Það var alveg meðvitað að ég ákvað að draga mig í hlé frá opinberum skrifum (margt spilaði þar inn í) og satt að segja er ég í miklum vafa – ég hef átt í samtölum við sjálfan mig – hvort það sé þess virði að skrifa þessar færslur á Kaktusinn. Það getur farið töluverður tími í dagbókarskrif á degi hverjum og þann tíma tek ég frá öðrum verkefnum og af þeim takmarkaða tíma sem ég á eftir. En hins vegar get ég sagt með góðri samvisku að ég skrifa á Kaktusinn af hjartans list, ef maður má orða það svo. Ég finn gleði við að setja hugsanir mínar á blað dagbókarinnar.

Ég hef tekið upp nýja siði á nýju ári. Alveg frá áramótum hef ég sest upp í lestina á hverjum virkum morgni og farið inn til Kaupmannahafnar til að setjast inn í lessal Hins konunglega bókasafns (Den sorte diamand) og skrifa þar. Lestina tek ég til Österport (þangað er 25 mínútna lestarferð) og þaðan geng ég í gegnum Øster Vold parken (Østre Anlæg), í gegnum Kongens Have og þaðan út til Kongens Nytorv og enda í Slottsholmen þar sem bókasafnið er.

Á safnið mætir líka vinur minn, rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Anders, og saman sitjum við í þögn lessalarins og skrifum. Í hádeginu tökum við fram nestisboxin okkar og borðum hádegismat saman, segjum hvor öðrum einhverja vitleysu og höldum síðan áfram að skrifa til klukkan hálf fimm. Þá tek ég lestina aftur heim.

Annan hvern morgun hleyp ég mína 10 km áður en ég legg af stað til Kaupmannahafnar. Í morgun var sólbjart þótt klukkan væri ekki orðin átta. Það er vor í lofti í Danmörku. Enn er kalt, frost alla morgna, en ég sé það á birtunni að vorið er að koma. Strandvejen er mín hlaupabraut. Þegar ég horfði út á Eyrarsundið, þar sem öll fraktskipin mjaka sér eftir hinni mjóu siglingarrennu, tók ég eftir fegurð morgunhiminsins og hvað sjálft sundið var fallegt í logninu. Ég er glaður að lifa og stundum finnst mér það að lifa sé eina verkefnið sem hefur verulega þýðingu fyrir mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.