Max 187 orð: Multi-talent-laus

Ég hef svolítið fylgst með útgáfu- og kynningarferli nýrrar bókar Guðmundar Andra Thorssonar, Rimsírams. Ég held með Guðmundi Andra og hef alltaf haldið með honum. Hann skrifar undurfallega og honum tekst jafnan að orða hugsanir sínar á skýran og elegant máta. Fréttablaðið er dautt og því hefur skáldið ekki lengur vettvang fyrir pistla sína, sem mér hafa nær alltaf þótt áhugaverðir. Þess vegna pistlar í bók. Titillinn þykir mér ekki góður. Í mínum huga var nóg að útvarpsþættir höfundarins bæru þetta uppáhaldsorð skáldsins og engin ásæða til að klína því líka á bókina. Bókin verður of léttvæg með þessum bullorðstitli.

Ég spái bókinni ekki mikilli sölu þrátt fyrir góða kynningu, almenna velvild sem Guðmundur Andri nýtur og að pistlar hans í bókinni séu örugglega góðir. Pistlar í bók er bara ekki það sem lesendur sækjast eftir.

Ég heyrði einu sinni af frægum höfundi sem hafði gefið út ritgerðasafn og einungis selt 150 eintök. Þegar honum barst þetta lélega söluuppgjör frá forlagi sínu sagði hann undrandi: „Og ég sem hélt að ég væri vinsæll höfundur.“

ps. Flott orð sem GAT hefur kynnt: Multitalentlaus.

(Orðafjöldi: 180)

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.