Nýtt handrit látins nóbelsverðlaunahafa finnst í skjalageymslu.

PR deildin hjá Penguin forlaginu fékk gott verkefni þegar þeim var fyrr á árinu falið að tilkynna heiminum með háum og fögrum lúðrablæstri um stórkostlegan handritsfund í handritageymslum háskólans í Texas. (Univeristy of Texas). Þetta voru mikil bókmenntatíðindi sem PR deildin átti að kunngjöra heiminum. Samtímis átti  að tilkynna að forlagið ætlaði sér að gefa hið nýfundna handrit út í bókaformi árið 2024. Höfundur er enginn annar en nóbelsverðlaunahafinn Gabriel Garcia Marquez, sem þekktastur er fyrir bækur sínar Hundrað ára einsemd og Ástin á tímum kólerunnar sem Guðbergur Bergsson þýddi á íslensku fyrir langa löngu.

Fyrir þá sem  þekkja  ekki Gabriel Garca Marquez þá fæddist hann í Kólumbíu árið 1927 og dó 87 ára í Mexikóborg árið 2014. Árið 1982 hlaut hann hin stóru verðlaun bókmenntanna, sænsku Nóbelsverðlaunin.

Það var árið 1999 eða fyrir 24 árum sem hann birti smásögu í kólombísku tímariti sem fjallaði um miðaldra konu, Ana Magdalena Bach. Sagan var kynnt sem fyrsti kafli í bók sem skáldið væri að vinna að. Aðalpersóna sögunnar var áðurnefnd Ana Magdalena sem hafði tekið upp á því að ferðast þann 16. ágúst ár hvert til ónefndrar hitabeltiseyjar og heimsækja þar kirkjugarð – bæði til að leggja blóm á gröf móður sinnar og til að segja henni frá hliðarsporum sínum í hjónabandinu og frá kynferðislegri reynslu sinni.

En árin liðu, Ggabriel Garcia lést árið 2014 en ekkert bólaði á framhaldinu á sögu Ana Magdalenu, enginn vissi hvernig fór fyrir henni. Ef höfundinum hafði tekist að skrifa söguna alla  þá virtist hún hafa gleymst eða týnst  í varðveislu fjölskyldu Gabriels Garcia. En nú er það komið á hreint. Handritið lá óskaddað, tilbúið til útgáfu í skjalasafni háskólans í Texas. Bókin hefur fengið titil: Við sjáumst í ágúst. (En agosto nos vemos) og kemur fyrst út á spænsku árið 2024.

Þótt lengi hafi sveimað orðrómur um að til væri óútgefið handrit eftir nóbelsskáldið kemur nokkuð á óvart að ný bók sé væntanleg því erfingjar skáldsins hafa verið þeirrar skoðunar að ófrágengin verk skáldsins skyldu ekki koma út heldur ættu að varðveita þau sem handrit.

En tæpum tíu árum eftir dauða Garbriels Garcia Marquez hafa þau skipt um skoðun. „Þegar við lásum handritið aftur, tíu árum eftir að hann lést, uppgötvuðum við að sagan var á margan hátt mjög góð og engin ástæða til að koma í veg fyrir að heimurinn fái notið verks Gabos: hann er frumlegur í notkun tungumálsins, frásögnin er grípandi, skilningur hans á manneskjum og hvernig fólk mótast af reynslu sinni, sérstaklega í ástarlífinu, er eitt af hans aðalsmerkjum.

Samkvæmt frásögn dagblaðsins El Pais mun Gabriel Garcia Marquez aldrei hafa klárað að skrifa sögu Ana Magdalenu þótt hann hafi endurskrifað hana margoft og árum saman. Í væntanlegri bók verða fimm sögur af Ana Magdalenu Bach. Bókin er stutt, aðeins um 150 blaðsíður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.