Undanfarna mánuði hef ég ætlað að ná mér í bók hér á Íslandi sem Kiljan (sjónvarpsþátturinn) vakti athygli mína á. En vandinn var sá að ég hef fyrir löngu gleymt nafni höfundar og titli bókarinnar. Í gær gerðist ég þó svo djarfur að ganga inn í bókabúðina á Akranesi, Eymundsson og byrja að á því að skanna bókahillur verslunarinnar til að sjá hvort ég þekkti bókina aftur. Ég mundi að hún var blá og hvít og það voru einhverjar þverlínur framan á bókinni. Í mínum. huga hét bókin Deig eða eitthvað álíka og höfundurinn var ungur karlmaður sem hét sennilega Björn eða Bjarni. Ég hallaðist að því að Forlagið hefði gefið bókina út. En ég var ekki viss.
Með þessa fávisku að vopni byrjaði ég að leita í hillum verslunarinnar og á búðarborðum. Að vísu féllust mér fljótt hendur og ég greip fram símann minn og fletti upp á Forlaginu/útgáfu / höfundar. Ég fann ekki þann Bjarna eða Björn sem ég leitaði að og komast að því að maðurinn hét sennilega eitthvað annað.
Svo kom til mín góðhjörtuð afgreiðslukona og spurði hvort hún gæti aðstoðað mig. Ég sagðist vera að leita að bók sem sennilega hefði ekki selst neitt, hefði ekki vakið neina sérstaklega athygli, sennilega gefin út af Forlaginu, héti eitthvað í líkingu við Deig, kápan væri blá og hvít og höfundur ungur karlmaður sem héti kannski Bjarni og kannski Björn og kannski eitthvað allt annað. Mig grunaði að bókin gerðist að hluta til á Akranesi. Ég var þó heldur ekki viss um það. En mér finnst að ég hafi lesið eina senu úr bókinni þar sem tveir lögreglumenn stóðu í anddyri íbúðar og sú íbúð var í mínum huga á Akranesi.
Mér til nokkurs léttis féllust konunni ekki hendur þótt hún gæti ekki látið sér detta í hug bók sem félli að þessari lýsingu. Það var flett upp í tölvu og kallað á fleiri starfsmenn og allar bláar bækur dregnar fram. Og svo gerðist hið óvænta. Ung afgreiðslukona fiskaði fram eina af bókunum í bókahillunni og spurði. „Það er ekki þessi?“
Þetta var bók eftir Brynjólf Þorsteinsson, Snuð, kápan hvít og blá með þverlínum. Útgefandi Una.
Fengur dagins. SNUÐ.
Á bls. 5 er þessi tilvitnun: „Atburðir gerðust og það sem verra var: Það var ekkert lát á þeim.“ Búlgakov.
ps. byrjaði að lesa bókina í gærkvöldi, veit ekki enn hvað mér á að finnast en vona það besta. Ég heyrði einu sinni í þessum Brynjófi í útvarpi og þótti gaman að heyra hann tala.