Bókasafnskona lýsir óánægju sinni

Nú síðastliðinn mánudag kom ég fljúgandi til landsins með flugvél frá skandínavíska flugfélaginu SAS. (Það var uppselt hjá Icelandair). Fyrir þær sakir að ég kok fljúgandi á SAS-vél var ferðalagið sérstakt og einnig vegna þess að ég kom til landsins í opinberum erindagjörðum. Ég er hér á landi eiginlega í boðsferð á vegum íslenskra bókaútgefenda, íslenska rithöfundasambandsins og menntamálaráðuneytisins. Sennileg er þetta í fyrsta sinn á ævinni sem ég flýg á vegum opinberra aðila og  kominn tími til (grín). Ég hafði verið fenginn til að tala á ráðstefnu sem haldinn var á Þjóðminjasafninu um stöðu og framtíð bókaútgáfu á landinu. Allt gekk ágætlega. Áhuginn fyrir ráðstefnunni virtist vera þónokkur því hvert sæti var setið og staðið með veggjum.

En mér var sagt að einn áheyrandi hafi verið afar ósáttur með frummælendur málþingsins. Úlfhildur Dagsdóttir, sem vinnur á bókasafni í Reykjavík, var gífurlega óánægð með að enginn af frummælendum skyldi minnast á mikilvægi bókasafna í framtíð bókmenntalífs á Íslandi. Hún hefur rétt fyrir sér. Auðvitað eiga bókasöfnin að leika stórt hlutverk í að halda lífi í bóklestri og efla áhuga á bókmenntum í landinu. Mér datt ekki í hug á minnast á þetta því ég var svo upptekinn af máttleysinu í menningarumfjöllun íslenskra fjölmiðla og hinum hræðilega lélegu kjörum sem rithöfundar landsins búa við. Og ekki fara þau batnandi með tilkomu Storytel.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.