Pistoia. Reykmerki frá himnum

Messureykelsið í kirkjunni myndaði þunnar dansandi slæður í ljósgeislunum sem boruðu sér gegnum litla glugga undir kirkjuþakinu. Dómirkjan í Pistoia var dimm enda gluggaopin agnarlítil og steindu rúðurnar yfir altarinu voru í dökkum litum. Ég sat á kirkjubekk aftarlega í þessu langa guðshúsi, hlustaði á söng prestsins sem hafði óvenju fallega söngrödd þótt hún væri ekki sterk. En augu mín leituðu alltaf upp því ég hafði á tilfinningunni að ég fengi vitrun; að í reykslæðunum birtist mér skyndilega greinilegt merki sem ég einn myndi skilja. Ég átta mig ekki á hvaðan ég fékk þessa hugmynd en svona leið mér.

Ég hljóma kannski eins og örvæntingarfullur maður, ráðvilltur og að ég bíði eftir merki að ofan um hvað ég skuli gera við líf mitt. En þannig er því ekki háttað. Reykslæðurnar sem dönsuðu í ljósgeislunum, tónlistin og þunga reykelsislyktin vöktu bara þessa tilfinningu. Ég hafði satt að segja ekki fyrr hugsað þessa hugsun með vitrunina að fyrir ofan mig blasti hjarta; ekki hjarta eins og í ástarmerkinu heldur eins og í bók um líkamsfræði. Hið anatomíska hjarta. Hjarta með greinilegum ósæðum. Og hvað átti þetta að þýða? Ég veit það ekki. Ég verð bara að bíða eftir næsta merki sem leiðir mig hina réttu leið. Yo!

Þessa mynd tók ég af vegg í Pistoia sem sýnir mann mála hjarta; einmitt þannig hjarta sem menn mála þegar þeir vilja teikna ástartáknið.

Við vorum snemma á fótum í morgun eins og oft áður. Íbúðin er heit og ísskápurinn var galtómur. Við röltum því út í Pistoiabæ í leit að morgunkaffistað. Davíð hefur rötunargen, hann finnur leiðir, ratar með lítill fyrirhöfn og hann stýrði okkur örugglega og akkúrat á þannig kaffistað sem manni dreymir um þegar maður er í litlum bæ á Ítalíu. Kaffi gott, croisantinn góður, allt var gott.

Ég get ekki gert að því en ég er alltaf að bera saman suður-Frakkland og Ítalíu í huganum. Og ég get heldur ekki að því gert að samanburðurinn er alltaf Ítalíu í vil. Ég kann bara svo miklu betur við hinn ítalska stíl, hið ítalska líf, hina ítölsku bæi, ítalska náttúru, ítalskan mat, ítalskt kaffi, ítalskt vín, ítalska tungu … miklu betur en það sem hinir fínu staðir í suður-Frakklandi hafa að bjóða.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.