Kirkjan á tangarendanum

Á ferð minni í gær milli Bilbao og San Sebastian, þar sem ég er nú, kom ég auga á kirkju langt í fjarskanum. Ég hafði stýrt ökutækinu sem ég hef á leigu burt frá hraðbrautinni milli borganna tveggja og út á fáfarnari veg meðfram ströndinni – sem sagt norðurströnd Spánar. Það var einmitt á þessum vegi sem ég sá þessa litlu kirkju eins og hún væri á eyju langt út í sjónum. Þegar ég kom nær kom í ljós að þetta var ekki eyja heldur langur  tangi þar sem kirkjan stóð á tangarendanum upp á grashól ofan á snarbröttum kletti. Mér þótti kirkjustaðsetningin svo falleg að ég ákvað að nema staðar, leggja ökutækinu og ganga í þessu frjósama landshluta í gegnum skóga og kjarr  til kirkjunnar.

Gangan var nokkuð erfið þar sem ég þurfti bæði að ganga upp snarbratta stíga, yfir gróft grjót og í gegnum kjarr sem hafði vaxið yfir gönguleiðina. Ég hafði næstum náð til kirkjunnar þegar ég mætti kuflkæddum manni sem gaf mér handarmerki um að nema staðar. Ég hlýddi en svo gaf hann mér annað handarmerki um að snúa við. Ég varð hissa, bæði yfir að mæta þessum kuflklædda manni sem ég reiknaði með að væri á einhvern hátt tengdur kirkjunni og líka að hann meinaði mér að koma að kirkjunni.
„Er mér bannað að koma til kirkjunnar?“ spurði ég kurteislega.
Maðurinn svaraði ekki heldur hélt áfram að snúa fingrunum sem merki um að ég ætti að ganga sömu leið til baka.
„Áttu við að ég eigi að ganga til baka?“
Maðurinn kinkaði kolli en sýndi nánast engin svipbrigði. Hann var alvarlegur en ákveðinn í fas og sagði ekki orð svo ég gekk út frá því að hann mætti ekki tala, að hann væri bundinn einhverju þagnarbindindi.

Ég neita því ekki að ég var svekktur yfir að ná ekki á leiðarenda þegar gekk til baka.

En ég er hins vegar kominn til San Sebastian, borgar rétt við landamæri Frakklands. Í gærkvöldi gekk ég um bæinn og komst strax að þeirri niðurstöðu að mér líkaði vel það sem ég sá.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.