Japan, Tókyó: Rakvél á vaskbrúninni

IMG_4768Enn var vaknað klukkan eldsnemma eða 5:30 því nú var tekin stefna á hinn margfræga fiskmarkað þeirra Tókyóbúa. TIl að eiga hinn minnsta möguleika á að verða vitni að stóraction og dramatík sem alltaf einkennir fiskmarkaði þarf maður að vera mættur fyrir klukkan 07:00.

Áður en lengra er haldið þá skal þess getið strax að ekkert hafði sést til Rori í gær og þegar ég sofnaði um 23:30 voru þess engin merki að hann væri kominn heim. Klukkan sex í morgun, þegar ég kom fram var heldur ekkert sem benti til að leigusalinn okkar, sem hafði tekið svo vel á móti okkur,  hefði látið sjá sig; engir skór, engar breytingar á ganginum, engin ný yfirhöfn… en… inni á baðherberginu var allt í einu ný rakvél á vaskbrúninni. Kannski hafði leigufrúin rakað sig? Eða Rori hafði komið heim í nótt og rakað sig og látið sig svo hverfa hljóðlaust aftur.

Nóg um Rori. Af einhverjum ástæðum, sem ég átta mig ekki alveg á hinni skrifandi stundu, komum við á áfangastað við fiskmarkaðinn eftir IMG_4758klukkan 07:00 og hvorki sást haus né sporður af fiski (að vísu taldi Davíð sig hafa séð fiskhaus niður i frauðplastkassa.) Við störðum því hálfvandræðalega á alla gaffallyftarana sem þeystu framhjá okkur í ausandi rigningu. Hvað nú? Við höfðum afrekað að keyra með neðanjarðarlestum Tókýóborgar  bæjarendana á milli, troðfullum af skyrtuklæddum miðaldra mönnum. Og svo stóðum við hér í hellirigningu meðal japanskra fiskverkamanna sem þegar höfðu lokið dagsverki sínu.

Það eina sem var mögulegt í stöðunni var að setjast inn á sushi-bar við höfnina og fá hráan nýveiddan fisk að borða. Það reyndist hin besta ákvörðun því það var gaman að snjá hinn unga sushigerðarmann útbúa sushi máltíð fyrir fjölskylduna af mikilli leikni. Flugbeittum japönskum fikshníf var beitt af gífurlegri nákvæmni og hraða. Og á undraverðum tíma lá þunn skorin fiskstykki fyrir framan okkur, með tilheyrandi skrauti

Við höfum gengið um Tókyó-bæ í dag og farið inn á tvö söfn sem Númi dæmdi “mega kedelig”  þegar dagurinn var tekinn saman í kvöld. Fyrst inn á framtíðarsafn. Þar átti maður að kynnast því sem framtíðin bæri skauti sér á sviði tæknimála. Safnið stóð ekki alveg undir væntingum. Ekki sérlega mikil framtíð sem maður fékk að kynnast, miklu heldur nýleg fortíð.

IMG_4767Hitt safnið bauð upp á sýning á mismunandi gullfiskum, stórum og litlum,  í óvenjulegum gullfiskabúrum, undir sterku kastljósi sem skipti ótt um lit. Oft frá eldrauðu ljósi yfir í blátt. Undir sýningunni var leikin draumkennd neðansjávartónlist úr földum hátölurum. “Mega kedeligt” var dómur Núma. Ég er nú ekki alveg sammála, þetta var fínt litaspil, en kannski heldur einhæft.

Nú er klukkan aftur orðin meira en 23:00 og enn bólar ekki á Rori. Ég hef myndað rakvélina á vaskbrúninni og á morgun get ég séð hvort rakvélin hefur verið hreyfð í nótt. Ég hef ljósmynd til að styðja mig við.