Á svefntíma hinna kvöldsvæfu

Á miðnætti í nótt hringdi síminn minn. Ég lá upp í rúmi og las.  Sus lá sofandi við hliðina á mér svo ég flýtt mér að slökkva á símanum til að rjúfa ekki svefnfriðinn en mér sýndist ég sjá hver hafði hringt. Ég hélt áfram að lesa og leiddi hugann ekki að hinni ósvöruðu símhringingu og las lengi; kláraði eina bók og byrjaði á næstu. Klukkan rétt rúmlega hálfþrjú þegar ég var við það að leggja bókina frá mér hringdi síminn aftur. Ég gerði ráð fyrir að sami maðurinn væri á bak við þessa símhringingu og velti fyrir mér hvort eitthvað hefði gerst eða hvort umræddur maður væri ölvaður eftir of mikla áfengisdrykkju og vildi röfla við mig. Þegar ég leit á símann sá ég að þetta var allt annar aðili sem hafði slegið á þráðinn í þetta sinn. Þessir tveir einstaklingar, sem nota símann sinn til að hringja þegar aðrir sofa,  þekkja ekki einu sinni hvor annan. Mér fannst ég ekki geta svarað símanum svona um miðja nótt og vakið alla. Ég lagði því á og beið þess að ég fengi SMS eða mail sem skýrði þessa síðbúnu símhringingu.

Ég lá í myrkrinu, hélt símanum fyrir framan andlitið og beið þess að skilboðinu kæmu. En dagbókarhöfundinum barst ekki bréf þessa nótt, ekki skilboð eða nein skýring á  næturupphringingunni. Ég lagði mig því á koddann og bjóst til að fara að sofa en ég viðurkenni að ég leiddi hugann að því hvað erindi þeir ættu við mig þessir tveir ólíku einstaklingar sem hringdu á svefntíma hinna kvöldsvæfu.

Eins og oft áður velti ég fyrir mér tímanum sem ég nota til að skrifa dagbókina mína; er honum vel varið?  Ég skrifa til að hugsa, ég skrifa til að æfa íslenskuna mína, ég skrifa því ég ímynda mér að ég vakni til lífs í hugum þeirra sem vilja mér vel; þeirra sem hugsa til mín. Ég veit svo sem ekki hvort þeir sem ég voni að lesi þessa dagbók, lesi hana.

Ég hugsa, ég hreyfi fingurna, ég skrifa. Þótt ég reyni oft að telja mér trú um að þessi dagbók sé bara fyrir sjálfan mig þá veit ég af hinum forvitna lesanda yfir öxlina á mér og það stýrir því að ég segi ekki frá öllu því sem kannski er efst í huga mér. Stundum pirrar það mig.

Af og til les ég gamlar færslur eftir sjálfan mig og það kemur fyrir að ég hafi gaman að því að lesa það sem ég hef skrifað. Lýsingar af því þegar ég var á ferðalagi á Kyrrahafseyju, þegar ég dvaldi í París eða var í heimsókn í Reykjavík. Þegar ég les gamla texta eftir sjálfan mig hlæ ég oft að sjálfum mér; mér finnst ég hálffyndinn gaur, ringlaður og hrasandi.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.