Chile, Santiago. Magakveisa af völdum flösu

Nú kom að því. Aldrei hef ég notað klósett í verslunarmiðstöð. Ég er bara ekkert fyrir að nota opinber klósett. En í morgun vaknaði ég með ægilega magakveisu. Ég veit ekki hvað hefur kveikt þessa veiki, matur eða hiti. Og ég var sem sagt hálfslappur en ákvað samt að ganga af stað með Sus, Núm og Daf til verslunarmiðstöðvar sem ekki er langt undan. Við þurftum að kaupa nauðsynjar fyrir ferðina upp í eyðimörkina á morgun.

Við gengum af stað upp úr klukkan 10. Í íbúðinni hafði ekki verið neitt matarkyns svo að við gengum af stað án morgunmatar. Starbucks var eina hverfiskaffihúsið sem var opið. “Höfum opið á sunnudögum” stóð á stóru skilti fyrir utan. Ég var svo ánægður með Starbucks í Japan, enda eini staðurinn þar sem ég gat keypt kaffi. Ég dásamaði Starbucks. Hér í Chile er Starbucks rottuhola. Ég píndi í mig einhverskonar brauði, sem 3 miðaldra, afdankaðir karlmenn í afgreiðslunni náðu í sameiningu og með erfiðsmunum að hita. Ég held að ég hafi fengið hálft kíló flösu ofan á brauðið. En ekkert kaffi. Ég hafði bara ekki list á kaffi.

Eftir að allir höfðu fengið eitthvað í gogginn á Starbucks héldum við aftur af stað í átt að verslunarmiðstöðinni og nú fann ég að allt stefndi í algert óefni. Mér var svo hrikalega illt í maganum. Chileanska flasan myndaði örugglega einhverjar loftbólur í maganum á mér og ég varð bara að komast á klósett. Hratt. En við áttum örugglega tíu mínútna göngu og það var sannkölluð þjáningarganga.

Verslunarmiðstöðin leit grunsamlega lokuð út þegar við nálguðumst. Ég náði að stynja upp.
“Heldurðu að það sé lokað?”
“Opnar klukkan ellefu,” sagði Sus.
Eftir korter!!!! Ég mundi ekki halda þetta út. Ég hljóp upp tröppur og reif í hurðir og ein laukst upp. Það fyrsta sem blasir við mér þegar ég kom inn í þetta gígantiska vöruhús var lítið grænt skilti á veggnum fyrir framan mig: WC ->
Takk!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.