Espergærde. Hinir óupplýstu

Ég heyrði í gærkvöldi að hinn nýi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, telji sig hafa rétt á því að velja hvaða blaðamenn skrifi um áætlanir ríkisstjórnar Breta. Þetta er staðan, hugsaði ég. Í huganum fór ég að hafa töluverðar áhyggjur af lýðræðinu. Ég fór nærri því að hugsa að allt var betra í gamla daga, þá voru að minnsta kosti til sterkir fjölmiðlar á Íslandi.

Ég orðaði þessa hugsun mína í morgun við Núma sem var á leiðinni í skólann. Hinn ungi maður var ekkert að skafa utan af því: „Lýðræðið er svo að segja þegar handónýtt,“ sagði hann.
„1. Grunnur lýðræðis er að fólk geti myndað sér skoðun byggða á þekkingu.
2. Mín kynslóð fær fréttirnar frá netinu, oftast breaking news frá gulu pressunni eða einhverja vitleysu af facebook. Og það gildir ekki bara um mína kynslóð. Færri og færri lesa dagblöð þar sem vandað er til fréttaflutnings.
3. Af þessu leiðir að skoðanamyndun byggir ekki á þekkingu.
4. Niðurstaða: Lýðræði virkar ekki.
4b. Og þar að auki er fólk almennt of heimskt til að geta horft fram hjá sínum eigin rassi og valið það besta fyrir þjóðina, ekki það sem er best fyrir sjálfan mig hér og nú.“

Þetta var dómur menntaskólanema á lýðræðinu í fjórum og hálfum lið. Það er alveg hægt að fylgja röksemdafærslu Núma og hann hefur að mörgu leyti rétt fyrir sér. Á Íslandi, og í Evrópu, er staða fjölmiðla sorgleg. RUV eini nothæfi fréttamiðillinn. Morgunblaðið hefur sínar góðu hliðar en það er varla hægt að taka fjölmiðil alvarlega sem hefur fyrst og fermst að leiðarljósi að verja hagsmuni eigenda sinna, hagsmuni kvótaeigendanna.

Ég las í síðustu viku góðan pistil eftir Elfu Ýr Gylfadóttur um fjölmiðlalandslag Norðurlanda og Íslands. Þetta eru fróðleg skrif um fjölmiðla á brauðfótum.

En ég er svo sem enginn samfélagsrýnandi, og engan áhuga á því, ég hafði bara áhyggjur af Boris Johnson og framferði hans. Ég hafði áhyggjur af lýðræðinu. Ég minnist ekki á félaga hans í vestri, þá fer ég í vont skap. Þrengingar veita þolgæði, eins og segir einhvers staðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.