Nú er helgin að baki og ég er sestur við mín dagbókarskrif. Ekki til að létta á hjartanu … eða kannski til að létta á hjartanu. Þegar ég var ungur maður stundaði ég nám í sálfræði – já, þetta gat maður. Af óskiljanlegum ástæðum tók Sigurjón Björnsson, þáverandi prófessor í sálfræði, mig undir verndarvæng sinn og fékk mig til starfa fyrir sig. Hann gaf mér mörg góð ráð en ég var of ungur til að skilja þau. „Þú skalt komast að á hverju fólk hefur áhuga. Þannig getur maður alltaf lært eitthvað um fólk; að heyra það tala um það sem það er áhugasamt um.“
Ég hef aldrei og mun sennilega aldrei ganga til sálfræðings en í tengslum við starf, sem ég átti að sinna þarna á mínum ungu árum sem sálfræðinemi, var ég látinn gangast undir einhvers konar próf. Ég var látinn svara hinum ólíklegustu spurningum af spurningalistum, og gangast undir margvíslega sálfræðilega greiningu. Hápunktur þessarar sálfræðirannsóknar var þriggja tíma samtal við sálfræðing. Ég man þetta samtal enn. Við töluðum um mig og það var svimandi tilfinning. Þetta var fær sálfræðingur sem fékk mig, hinn þögla mann, til að tala um og opinbera hluti um sjálfan mig sem ég hafði aldrei áður hugsað um. Ég fékk starfið en nú velti ég því fyrir mér hvort þessi aðferð að fá fólk til að tala um áhugaefni sín sé enn notuð, hvort hún sé nothæf. Er í alvöru einhver sem lengur hefur einlægan áhuga á einhverju, á þessum ég-um mig -frá mér-tímum?
Ég segi frá þessu hér því mér varð hugsað til gamals manns sem hringdi með jöfnu millibili til mín til að biðja mig að senda sér þær glæpasögur sem ég gaf út hér í Danmörku. Hann hafði áhuga á glæpasögum. Hann las þær allar og skrifað um þær í lítið fréttabréf sem hann gaf út vikulega. Þessi maður lifði á öðrum tíma. Hann hafði ótrúlega þekkingu á glæpasögum samtímans, höfundum þeirra, þróun glæpasögunnar … Hann hafði lifandi áhuga. Í fjölrituðu fréttabréfi sínu sem hann póstsendi um allar trissur með ærnum tilkostnað deildi hann hugðarefni sínu og þekkingu með öðrum sem hann taldi að einnig hefðu áhuga á glæpasögum. Á bókmessunni í Kaupmannahöfn kom maðurinn alltaf við á básnum okkar til að þakka fyrir þær bækur sem ég hefði sent honum. Það var lítillæti yfir þessum aldna manni, auðmýkt og góðvilji. Ég hugsaði oft þegar ég hafði kvatt hann að þarna færi ekta maður. Ég vildi að ég væri svona.
En við köllum þetta fólk nörda; þessar manneskjur sem eru innilega áhugasamar um annað en sjálft sig, hvort sem það er frímerki, rauðvín eða glæpasögur. Og það er í niðrandi merkingu sem við notum orðið, en nördinn er satt að segja sá hefur eitthvað til að bera. Bara með því að líta upp og horfa á heiminn, horfa á eitthvað annað en sjálfan sig, eigin nafla, eigið vörumerki, eigið mikilvæga identitet getur maður fundið hina stóru gleði í lífinu … fyrir utan sjálfan sig.
Bókmenntamoli: Hinn þekkti glæpasagnahöfundur Jo Nesbø selur margar bækur ár hvert, meira en 40 milljónir bóka hefur hann selt og eru sögur hans þýddar á 50 þjóðtungur. Árið 2018 seldi hann bækur fyrir 570 milljónir íslenskra króna og þar með eru eignir hans orðnar meiri en 4 milljarðar króna. Það er sem sagt mögulegt að efnast svona ægilega þótt maður starfi við að skrifa bækur. Og Jo Nesbø valdi að gerast rithöfundur þótt hann hefði áður átt farsælan feril sem verðbréfasali, knattspyrnumaður og poppstjarna. Nú er hann ríkasti rithöfundur Noregs, en hann er aðallega þekkur fyrir glæpasögur sínar þar sem aðalpersónan er lögreglumaður að nafni Harry Hole,
ÉG nefni þetta því eitt af því sem vekur áhuga fólks á öðru en sjálfu sér eru einmitt peningar annarra. Jo Nesbø var spurður út í peningana hans: „Ég hugsa ekki svo mikið um peninga,“ svaraði hann. „Það kemur að því að peningar hafa ekki svo mikla þýðingu. Fyrst þegar ég var að byrja að skrifa var ég áhugasamur um að afla fjár, en mér tókst að eignast nógu marga peninga til að ég hafði frelsi að lifa lífinu eins og ég vildi. Þegar maður hefur náð á þann stað skipta peningar ekki svo miklu máli.“
