Espergærde. Allt er í mínum höndum

Óskýrt tal, loðin hugsun. Þessi setning kom í huga mér þegar ég hlustaði á útvarpsþáttinn Lestina á leið minni til vinnu í morgun þar sem miðaldra karlmaður reyndi að útskýra fyrir hlustendum hvers vegna  það væri mikilvægt að þekkja ákveðið gamalt listaverk og hvers vegna það „ætti erindi við samtímann“.  Ég veit ekki hvort þetta er rétt athugað hjá mér, kannski eru jólin með öllum sínum endalausu jólalögum, endalausum jóla-eitthvað að  fara illa með taugarnar í mér.

Ég viðurkenni að ég get fundið fyrir djúpri örvæntingu yfir jólasöngvum (sérstaklega All I Want for Christmas is You) og ef ég hefði ekki ómannlegan viljastyrk (yo!) og læt því þennan jólasöng yfir mig ganga, mundu engir kraftar þessa heims geta haldið mér frá því að slökkva á öllum þeim útvarpstækjum sem spúa þessu og álíka jólasöngvum út úr hátölurum sínum. Í mínum huga er þessi tegund jólasöngva eitt stórt tákn fyrir – ja, ég vil ekki segja hnignun – þá leið sem menning okkar stefnir. Að tilfinningalíf okkar, okkar sjálfsupptekna tilfinningalíf, er allt í einu orðið miðja jólaboðskaparins, miðja jólasögunnar. En ég er sennilega einn í heiminum um þessa skoðun svo ég held aftur af mér með mínum ofurmennska viljakrafti.

Ég tala við sjálfan mig. 

Um leið og ég skrifa þetta herði ég upp hugann og minni mig á að allt er í mínum höndum. Líf mitt er í mínum höndum, hugsanir mínar  … Ég kveiki á hátalaranum, set hljómplötu á fóninn, – hljómplötu sem mér er að skapi – ég vanda mig við að láta nálina falla létt á vinylinn, halla mér aftur og bíð eftir fyrstu tónunum og held svo áfram að skrifa. 

Ég er enn að lesa Johan Harstad. Einn kafli á dag varð að tveimur köflum í gær þótt kaflarnir væru svo langir, svo margar blaðsíður, að það tók mig þrjá tíma að lesa þá. Ég á mikið eftir af bókinni. Samkvæmt mælingum er ég búinn með 16% af bókinni. Ég mæli þess vegna  er ég.

Hve lengi getur maður verið í burtu áður en það er of seint að snúa heim? Spyr höfundurinn. Og hvar er „heim“? Þetta finnst mér, útlaganum, manninum sem allstaðar er í útlöndum, áhugavert.

Ég sá að Politikens forlag hefur tekið viðtal við höfundinn, Johan Harstad, á myndband. Viðtalið er 4 mín. og 41 sekúnda og það eru einungis 39 í heiminum sem hafa séð þetta fína viðtal á YouTube. Það  kom mér á óvart að ekki væru fleiri sem hefðu skoðað viðtalið. Það er langt síðan ég hef verið pínulítið leiður yfir því að sjá ekki mitt gamla forlagsnafn á bók. Í rauninni er það Hr. Ferdinand sem gefur út bókina hans Johans Harstad en Politiken (nýju eigendurnir) hafa ákveðið að setja C&K forlags-lógóið á bókina, og C&K, þótt ég hafi sjálfur átt forlagið, tengi ég núorðið við leiðindi og vandræði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.