Espergærde. Dagbókarhöfundi berast bréf.

Síminn minn gefur ekki frá sér hljóð þegar hann móttekur skilaboð eða tölvupósta. Oft er síminn við hliðina á mér á náttborðinu þegar ég sef og ég vil ekki vakna við að símanum mínum berast bréf um nætur. Í morgun þegar ég leit á símann minn fagnaði ég því að ég hafði fundið upp á þessari hljóðlátu stillingu því annars hefði ég ekki sofið eitt augnablik í nótt fyrir látunum í símanum. Ágætur maður, sem ég kannast lítillega við, virðist hafa farið hamförum í nótt. Ég taldi 11 tölvupósta sem maðurinn hafði sent mér, og við sem þekkjumst varla.

Eitthvað virðast dagbók mín, Kaktusinn, fara fyrir brjóstið á þessum nátthrafni, því hann telur sig fá þar hraksmánarlega umfjöllun og bætir svo við ég hampi fólki sem svo sannarlega eigi það ekki skilið án þess þó að hann nafngreini þá heppnu. Ég kom satt að segja algerlega af fjöllum. Ég mundi bara ekki eftir að hafa skrifað um þennan ágæta mann og ég hef svo sem enga ástæðu til að skrifa í einhverjum hortugheitum um persónu hans og athafnir. Þetta kom mér satt að segja úr jafnvægi. Og ég hafði ekki einu sinnið drukkið morgunkaffið mitt.

Þegar ég kom niður gekk ég út á verönd, andaði að mér fersku morgunlofti og virti fyrir mér morgunsólina skríða upp himininn. Það var fallegt ljósið í morgun. Þrátt fyrir fegurð heimsins átti ég erfitt með að hrista af mér ónotin sem ég fann fyrir eftir að hafa lesið þessa holskeflu tölvupósta frá því í nótt. Á meðan ég hellti upp á kaffi (ég er að prófa nýja tegund kaffibauna) og ristaði brauð reyndi ég að rifja upp hvað ég hafði skrifað um manninn á Kaktusnum. Meira en 670 færslur liggja í Kaktusdagbókinni og satt að segja mundi ég ekki eftir að maðurinn hafi komið til umtals. Þetta hlaut að vera einhver misskilningur. Eftir að hafa lesið dagblaðið og drukkið kaffi úr nýju kaffibaununum ákvað ég opna Kaktusinn og reyna að finna hvað það var sem maðurinn vitnaði í. En ég fann ekkert! Ég skildi ekkert. Ein færsla var kannski svolítið fyndin og gæti verið túlkuð manninum í óhag. En þá þyrfti svo sannarlega að vera mikill vilji til þess. Ég sá á þessum tölvupóstum að maðurinn gat ekki verið vel inni í færslum mínum á Kaktusnum né yfirleitt inni í lífi mínu því tölvert var um staðreyndarvillur frá hans hendi og stórkostlegur misskilningur um stöðu mína. Hafði maðurinn lesið Kaktusinn? Eða hafði hann heyrt eitthvað frá einhverjum? Það mátti helst skilja á manninum að hann taldi Kaktusinn vera einhverja valdastofnun sem hefði það að markmiði að hefja ákveðna einstaklinga til skýjanna og troða aðra niður í svaðið. Hmm! Dálítið leiðinleg sýn.

Ég skrifaði manninum tölvupóst og baðst afsökunar á að ég hefði sært hann með skrifum mínum. Það væri alls ekki ætlunin að vera vondur við einn né neinn. En ég bað hann jafnframt um að senda mér þær setningar sem höfðu sært hann. Kannski gæti ég leiðrétt misskilning. Enn hefur ekki borist svar og ég er satt að segja spenntur. Ég nenni ekki að fólk sé að hafa skoðanir á mér og misskilja Kaktusinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.