Espergærde. Greitt til hliðar-stefnan

Í morgun tilkynnti Davíð að hann ætlaði að safna hári. Það fannst mér fyrirtaks hugmynd. Mér hefur alltaf fundist svo flott þegar börnin mín, sérstaklega strákarnir, hafa greitt til hliðar. Ég hef verið óþreytandi talsmaður greitt til hliðar stefnunnar. Númi hefur á sínum táningsárum tileinkað sér greitt til hliðar með ákveðinni fullkomnun. Nói og Sölvi hafa ekki verið nógu duglegir. En það er ekki of seint drengir. Yo.

Helgin varð ekki sú mikla vinnuhelgi og ég hafði gert mér í hugarlund á föstudaginn. Mér tókst að vísu að vinna allskonar heimilsverk; setja upp lampa, gera við lampa, setja saman IKEAhúsgagn, slá gras, taka á móti gestum… en enginn tennis, enginn göngutúr. Það sem þó hefur kvalið sálina mest: Ég settist ekki niður við verkefni mín. Jú, ég settist niður með góðan ásetning en svo var allt í einu Chelsea og Arsenal í sjónvarpinu og þann leik varð ég bara að sjá! Og þar á eftir Man. Utd. á móti Everton (með Gylfa í framlínunni). Mig langaði að sjá Gylfa spila með Everton. Og skyndilega eru meira en 3 klukkutímar farnir. Grrrrrr.

Númi fór að sjá Stephen King hrollvekjuna IT í gær. Ég get ekki séð hrollvekjur en ég hef lengi dáðst að Stephen King. Eftir að ég byrjaði að gefa hann út hér í Danmörku hef ég lesið síðustu bækur hans og haft tölvert mikil samskipti umboðsmann Kings sem er æði sérstök og áhugaverð týpa. Hann hefur samaskonar hring á fingri og SJÓN: auga á fingri. Þegar ég tala við hann, umboðsmanninn ekki SJÓN, finnst mér hann alltaf horfa á mig með þriðja auganu á fingrinum. (Ég held meira segja að hann sé með gerviauga í vinstri augnholunni.) Hann hefur að minnsta kosti undarleg áhrif á mann, umboðsmaðurinn.

Ég hef alltaf verið nokkuð hrifinn af afstöðu Stephen Kings til ritstarfa. Hann skrifaði heila bók um það að skrifa On writing, sem er klassík. Þar og í viðtölum hefur hann gefið þeim sem hafa áhuga á að skrifa ráð sem vel er hægt að hafa í huga:

 1. Ekki bíða eftir að andinn komi yfir þig – komdu þér að verki.
  „Amatörar bíða eftir að andargiftinni, við hin setjumst bara niður og vinnum,“ skrifar hann á einum stað í bókinni sinni On Writing. „Ég reyni að skrifa tíu síður á dag, það eru um það bil 2000 orð. Eftir þrjá mánuði hefurðu skrifað 180.000 orð sem er ágæt lengd á bók – minnsta kosti nógu löng til að lesandi geti gleymt sér í. Það er að segja ef sagan er vel sögð og er fersk.
 2. Maður skal vinna á sínum eigin hraða.
  Í viðtali við  The New York Times (dagblaðið ameríska) þar sem blaðamaður spyr hvort að rithöfundur geti verið of afkastamikill svarar King: „Þegar ég var ungur maður var höfuðið á mér eins og fullur bíósalur þar sem einhver hefur hrópað ELDUR! og bíógestirnir berjast við að komast í átt að útganginum. Ég hafði milljón hugmyndir en bara tíu fingur og eina ritvél. Í mínu tilviki er frjósemin óhjákvæmileg.“
 3.  Veikleikar eru til að yfirvinna. Ekki missa móðinn við slæma gagnrýni.
  Eitt sinn var King spurður af lesanda sínum hvernig hann styrkti veikleika sína og King svaraði: „Við skriftir er eina leiðin til að takast á við veikleika sína að einangra þá. Maður verður að lesa eigin verk með ákveðnum kulda. Nota kalda augað eins og ég kalla það.“
 4. Skrifaðu og skrifaðu. Lestu og lestu.
  Stephen King skrifar frá klukkan átta á morgnana til klukkan tólf. Frá klukkan eitt les hann (verk annarra) til klukkan fimm. Svo er frí. „Maður verður bara betri til að skrifa ef maður skrifar mikið. Og ekki vanmeta það að lesa aðra höfunda, bæði sögur og ljóð. Það eru til margir góðir pennar í heiminum.“

ps. Annars var ég ansi ánægður með svolítið sem las ég í pistli ég hjá Eiríki Erni Norðdal, (hann er rithöfundur):  „Ég skil ekki alveg þá sem eru mótfallnir því að glæpamenn fái uppreist æru. Sennilega eru lögin úrelt og kerfið náttúrulega alls ekki nógu gott. En mér finnst samt hugsunin rétt. Að maður eigi endurkvæmt til samfélagsins. Ef við viljum ekki að fólk geti snúið aftur – það geti lifað eðlilegu lífi á ný – þá er einfaldast og heiðarlegast að sleppa því bara ekkert út úr fangelsi… samfélag sem kann ekki að fyrirgefa er handónýtt.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.