Espergærde. Hið saklausa og hið spillta

Ég hef ekki komist til að skrifa dagbók dagsins fyrr en nú og klukkan er að verða 11:00. Ég byrjaði daginn á jóga, hehe. Við vorum bara þrjú á gólfinu í morgun. Þótt ég hlakki aldrei til að mæta í jóga á morgnana og reyni að finna flóttaleið í huganum er ég alltaf ánægður þegar ég er búinn að puða. Jógakennarinn er jákvæð og uppörvandi kona sem fyllir okkur með góðum hugsunum og krafti.

Svo kom ég heim að loknum æfingunum til að skipta um föt áður en hinn hefðbundni vinnudagur hæfist. En ég hafði gleymt lyklunum, Sus var hjá hnjásérfræðingi inni í Helsingör og strákarnir farnir í skólann. Dyrnar voru harðlæstar og ég komst ekki inn. Ég fann mér því verkefni í kringum húsið (alltaf þarf maður að gera eitthvað, aldrei hægt að setjast niður og gera ekki neitt). Ferlegur ávani. En ég byrjaði að slá gras, draga fram sólhlífina sem var inni í skúr. Þar var líka gamall skápur sem átti að henda og ruslakallarnir taka stórrusl í dag. Ég hélt sem sagt áfram að puða.

Ég hef heyrt það hjá nokkrum Íslendingum að Íslandsbanki keyri einhverja auglýsingaherferð sem fer í taugarnar á þeim. Það á víst að vera einhver ranghugsun í henni. Ég hef ekki séð auglýsinguna, en auglýsingin gengur út á, ef ég skil rétt, að maður eigi ekki að gefast upp heldur þola “þjáningar” í ákveðinn tíma áður en marki er náð. Satt að segja sé ég ekkert rangt við þetta. Þetta er ég alinn upp við. Ég hef aðeins brotið heilann en skil ekki alveg hvað er að. Talar auglýsingin kannski til kynslóðar sem vön er að fá vilja sinn án mikillar tafar? Eða er það vegna þess að misskipting gæða sé svo mikil á Íslandi að það eru bara sumir sem þurfa að þola og bíða? Og þeim sem þola og bíða finnist hinir efnameiri hæðast að sér með auglýsingunni því þeir þurfa aldrei að bíða, þeir fá tafarlausa fullnægingu langana sinna? Mér heyrist að menn líti svo á að fólk geti ekki efnast á Íslandi nema með svindli eða einhverjum spilltum aðferðum. Það er alltaf Panamafnykur af þeim peningnum sem hinir efnameiri geyma í veskinu sínu.

Enn er ég svo saklaus að trúa á að sumir hafi dugnað, heppni eða jafnvel snilld til að efnast á fullkomlega eðlilegan hátt á Íslandi eins og annars staðar í heiminum og að auki borga sína skatta og sinna sínum skyldum. Og sumir láta jafnvel gott af sér leiða. Ég lærði snemma að peningar eru rót flestra óheillaverka, deilna og óhamingju en það þarf samt ekki alltaf að vera eitthvað óeðlilegt, spillt eða ljótt við að eiga fé. Mér virðist fólk (líka þeir sem fjargviðrast yfir ríkidæmi sumra) sífellt vera streða til að eignast fé. Jæja, nú fæ ég spark í punginn.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.