Kaupmannahöfn í rigningu. Þetta er fyrsta hugsunin sem kemur í huga mér þegar ég sest yfir dagbók dagsins. Kannski er það ekki undarlegt að þessi hugsun flögri að mér þar sem ég varði meirihluta gærdagsins inn í höfuðborg Danmerkur í ausandi rigningu. Þeir voru blautir ferðamennirnir sem örkuðu eftir Strikinu og flestir þeirra leituðu skjóls á nærliggjandi kaffihúsum. Ég er svolítið óánægður með að ég skyldi ekki taka ljósmynd á göngu minni í rigningunni til að skreyta þessi dagbókarskrif. Ég á bara eina ljósmynd frá lífi gærdagsins. Hana tók ég inni í húsgagnaverslun sem hafði raðað sófapúðum í mismunandi litum í hillur og ég tók mynd af púðunum. Mér fannst gaman að hinni formlegu röðun litanna.
Í gær fékk ég svo tölvupóst frá menningarblaðamanni eins af höfuðblöðunum hér í landinu þar sem hann spurði mig hvort ég gæti gert honum þann greiða að lesa yfir skáldsögu sem hann væri með í smíðum. Það er mér hulin ráðgáta af hverju hann spyr mig um að lesa bókina fyrir sig. Ég þekki manninn ekkert sérlega vel. En ég er fús til að reyna að hjálpa honum.
ps. ég las viðtal við rithöfund í JyllandsPosten (með fortíð sem kvikmyndaleikstjóri) sem sagði að á tuttugu árakvikmyndaleikstjóraferli sínum hefði hann aldrei hitt ánægðan og hamingjusaman kvikmyndaleikstjóra. Sérstaklega voru þeir leikstjórar sem höfðu náð mestri frægð óánægðastir. Sá reiðasti af öllum var Lars von Trier og hann var kannski reiðasta mannvera sem viðmælandinn í viðtalinu hafði hitt á ævinni. Hann ákvað að hætta að vinna í kvikmyndaleikstjórn og gerðist rithöfundur þess í stað og nú þegar hann hefur starfað sem rithöfundur í nokkur ár með ágætum árangri (400.000 seldar bækur á fimm árum) kemst hann að raun um að rithöfundar eru heldur ekki sérlega hamingjusamar manneskjur – og almennt ekki mikla hamingju að finna í því fagi. Já!