Espergærde. Sextíu og sex senur frá Espergærde. Yo!

Ég las í gær að Burger King, hamborgarakeðjan með bragðvondu hamborgarana, hefði sýnt í vikunni auglýsingu á Super Bowl leiknum í Atlanta (margir áhorfendur). Í fjóra og hálfa mínútu sýnir auglýsingin (lengri gerðin, hlekkurinn er á styttri gerðina) Andy Warhol horfa inn í myndavél og borða hamborgara frá Burger King.

Ég nefni þetta hér vegna þess að klippið með Andy Warhol, sem nú er orðin auglýsing, er hluti af verkefni sem danski kvikmyndagerðarmaðurinn Jørgen Leth setti í gang fyrir fjörutíu árum, sem hann kallaði sextíu og sex svipmyndir frá Bandaríkjunum. (Jørgen Leth vildi endilega að Andy Warhol að borða hamborgara væri ein af senunum sextíu og sex. Enginn trúði því að Jørgen gæti fengið listamanninn til að taka þátt í kvikmyndinni hans. En Jørgen var sannfærður um að hann gæti platað Andy í lið með sér. Sagan segir að Jørgen Leth hafi komið við á Burger King, keypt einn hamborgara og fengið tómatsósuflösku með sér. Síðan hafi hann gengið yfir Union Squere upp á hina þekktu vinnustofu Andys og lagt hamborgarann fyrir framan listamanninn (og tómatsósuflöskuna) og spurt hvort hann mætti kvikmynda hann borða hamborgarann. Andy mun hafa svarar. „Já, auðvitað. Ég er svangur. Bara ef ég þarf ekki að borga fyrir matinn.“) En það var ekki þessi litla saga af Leth og Andy sem vakti áhuga minn heldur hugmyndin (eða konseptið eins og slíkt er kallað nú um stundir) sextíu og sex senur frá Bandaríkjunum sem mér finnst svo flott. Sextíu og sex senur frá Espergærde, sextíu og sex senur frá Vopnafirði. Yo!

Mér finnst nýja lífið hér á nýju skrifstofunni minni bæði áhugavert og fyndið. Ég fylgist með daglegu lífi skrifstofufélaga míns og skipsflutningsmiðlara (Lars). Það er í sjálfu sér kannski ekki neitt merkilegt sem gerist (bílviðgerðir, líkamsrækt, ný áskrift fyrir farsíma, baráttan við aukakílóin, samtöl við samstarfsmenn í Asíu …). Þegar ég kem heim í hádeginu til að fá mér hádegismat með Sus hef ég farteskið fullt af örsögum af lífi og starfi skipsmiðlara.

ps. upp á þaki nýbyggingarinnar hér handan götunnar eru allt í einu 5 gulklæddir verkamenn. Mér finnst eins og þeir viti ekki alveg hvað þeir eiga að gera af sér. Þeir standa, glápa og vafra um (einn situr á svartri fötu sem hann hefur snúið á hvolf).

pps. Ég fékk bréf seint í gærkvöldi frá félaga mínum á Íslandi sem ég heyri ekki svo oft í og ég verð alltaf svo glaður þegar ég fæ slíkar sendingar. Ég fékk líka í fyrradag bréf frá öðrum félaga sem ég heyri heldur ekki svo oft frá. Það er Kaktusinum að þakka að þetta góða fólk man eftir mér og nennir að skrifa til mín. Og eiga alls konar erindi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.