Espergærde. Velkommen hjem

Það eru þrjár vikur síðan við komum heim úr heimsreisunni miklu. Í morgun þegar ég hjólaði eftir regnvotum götum litla bæjarins míns mætti ég bæði börnum á leið í skólann og fullorðnum sem gengu hröðum skrefum í átt að lestarstöðinni til að ná næstu lest inn til Kaupmannahafnar þar sem kaldur skrifstofustóllinn bíður þeirra. Svona er þetta á hverjum morgni, nema göturnar eru ekki alltaf regnvotar. Oftast skín sólin á útsprungnar rósirnar í görðunum meðfram gangstéttinni. Espergærde er lítill bær, það hefur bæði sína kosti og sína galla. Í mínum huga vega kostirnir miklu þyngra en ókostirnir. Hér gefur fólk sér tíma til að spjalla á götum úti, hér er vinsamlegt andrúmsloft þar sem fólk bíður hvert öðru góðan daginn á förnum vegi.  En það sem ég vildi segja var að á leið minni til vinnu í morgun var tvisvar kallað á eftir mér: “Ho, Zlatan, velkommen hjem,” og í bæði skiptin voru það litlir drengir, ellefu eða tólf ára á leið í skólann, í dag er síðasti kennsludagur.

Hér þekkja bæði börn og fullorðnir mig sem Zlatan, af fótboltavellinum í bænum. Það yljar mér um hjartarætur að heyra þessi köll sem ég hef heyrt næstum á hverjum morgni frá því komum. Já, þetta er lítill bær og börnin í bænum vita að ég hef verið í burtu og er kominn aftur.

IMG_7785

ps. Í gær var hringt frá Osteria Francescana í Modena, veitingahúsið hans Massimo til að segja að við hefðum fengið borð á veitngastaðnum þeirra á miðvikudaginn, þrátt fyrir allt. Í síðustu viku var  veitingastaðurinn valinn sá besti í heimi. Það verður gaman að borða hjá Massimo!

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.