Frankfurt. Aftakan

Ég hafði ekki tíma til að skrifa áður en ég lagði af stað til Ítalíu, því hef ég ákveðið að skrifa hér í flugvélinni sem flýgur frá Frankfurt eftir augnablik. Já, furðulegt en satt, millilending í Frankfurt á fluginu til Mílanó. En hér sit ég á milli tveggja hressilegra, brosmildra karla, sem fylgjast með því sem ég skrifa. Annar er frá Tyrklandi og hinn kemur frá Albaníu. Þeir benda á skjáinn og vilja vita hvað ég sé að skrifa og hlæja þessi ósköp að ð-um og þ-um. Hvorugir trúa því að ég skrifa á íslensku. Þeir vissu ekki einu sinni að slíkt tungumál væri til. Ég fullvissa þá um að svo sé enn.

Ég las Gísla sögu Súrssonar í fluginu til Frankfurt enda hef ég aldrei lesið söguna. Ég finn að ég er kominn úr æfingu að lesa Íslendingasagnatextana. Það er langt síðan ég las Njálu, Egilssögu … Ég las líka formála Bergljótar Kristjánsdóttur. Ég er sjaldnast sammála henni.

Á flugvellinum í Frankfurt sá ég hina þekktu ljósmynd Eddi Adams úr Víetnamstríðinu af lögreglustjóranum frá Saigon, Ngoc Loan. Útréttur handleggur og skammbyssa í hendinni, og svo höfuð sem tilheyrði skæruliðanum Lop. Myndin, sem hefur heillað mig í mörg ár, er tekin á hinu fullkomlega rétta augnabliki hinn 1. febrúar 1968, á því sekúndubroti þegar byssukúlan hefur rétt yfirgefið byssuhlaup lögreglustjórans, hefur borað sig inn í gegnum höfuðkúpu Lops, tætt sig inn í heilann, en hefur ekki enn náð alla leið út um höfuðkúpuna hinum megin. Þetta augnablik sýnir einmitt andartakið milli lífs og dauða.

Það er af Ngoc Loan, lögreglustjóranum frá Saigon, og handhafa byssunnar, að frétta að hann flúði Víetnam árið 1975, opnaði pizzastað í Washington DC og rak hann þar til einhver þekkti hann af þessari frægu ljósmynd og það leiddi til handtöku hans. Árið 1991 var hann svo dæmdur fyrir aftökuna. Ég hef ekki hugmynd hvað síðan varð af herra Ngoc Loan eða hvar hann er nú.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.