Hvalfjörður. Björt lund fausksins

Allt mitt líf, eða svo lengi sem ég man, hef ég verið þjakaður af því sem kallast björt lund – það er að mér hefur aldrei tekist sérlega vel að hafa verulega miklar áhyggjur af veröldinni, Ég hef alltaf vænst þess besta fyrir sjálfan mig og heiminn og haft trú á að allt fari á besta veg, Mér er hin bjarta lund eðlislæg. Ég er samt ekki happy-go-lucky týpan. Stundum held ég að fólk sem þekkir mig ekki haldi að ég sé agalega alvarlegur maður. Það er vegna þess að ég er af náttúrunnar hendi frekar þögull og lágmætur.

Ég minnist á þetta hér, og fer í þessa undarlegu sjálfsgreiningu, vegna þess að’ég átti samtal í gærkvöldi við unga konu. Af einhverjum ástæðum snerist hluti samtalsins um dagbókarfærslur mínar; það er þessa hér Kaktusdagbók, sem hún sagðist lesa af og til. Viðmælandi minn, ákaflega skynsöm og velviljuð ung kona, sagði allt í einu að ég væri annar maður í viðkynningu en sá sem skrifaði á Kaktusinn. Kaktusmaðurinn væri blúsaður, hálflífsleiður fauskur. Þetta sagði hún alls ekki til að særa mig, svona las hún bara Kaktusinn. Ég held að mér hafi aðeins brugðið við orð þessarar góðu konu. Í nótt þegar ég lagðist til svefns – og búinn að slökkva á náttlampanum – fór ég að hugsa um orðið fauskur, ég hef alltaf heyrt það sett saman við orðið karl – það er karlfauskur – sem mér þykir skelfileg týpa. Ég leit meira að segja í orðabók þegar ég vaknaði í morgun til að kanna hvort unga konan meinti eitthvað annað, að þetta orð hefði ef til vill einhverja aðra merkingu en þá sem ég þekkti: „karl-fauskur. niðrandi orð um gamlan mann,“ stóð skrifað skýrum stöfum í hinni íslensku orðabók..

En þannig hefur mér aldrei dottið í hug að dagbók mín gæti verkað á fólk sem les hana. Satt að segja varð ég dálítið hugsi yfir þessu og þótti leitt að Kaktusinn gæti væri lesinn á þennan hátt. En þá kemur maður að öðru máli sem er ekki síður mikilvægt; tónninn, röddin í skrifum manns. Ég hef sjúskað, hugaði ég. Snæi minn, þú hefur sjúskað. Þú hefur ekki vandað þig við að fá hinn rétta tón í skrif þín, þú hefur notað rödd karlfausksins. Karlfauskur vil ég ekki vera. Hér eftir reyni ég að finna annan tón sem endurspeglar betur mína eðlislægu, björtu lund. Já.

ps ég fann tvo fína mosasteina á morgungöngu minni sem ég bar hingað upp að húsinu. Þessir tveir voru minni en sá sem ég fann í gær og því gat ég borið tvo í einu. Nú á ég þrjá flotta mosasteina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.