Menn sem reykja jurtasígarettur.

Ég vaknaði í morgun hér í borginni Bilbao í Baskalandi við tónlist sem ég tengdi samstundis við Afríku. Ekki áttaði ég mig strax á hvaðan þessi hátt stillta og framandlega tónlist barst. En ég lá í rúminu og reyndi að hrista af mér nætursvefninn. Ég var því hreyfingarlaus um stund í rúminu og leyfði mér að vakna í rólegheitunum. Það leið því nokkur tími þar til ég nennti að fara á fætur til að kanna hvaðan þessi háværa músik barst. Ég leit út um gluggann – þegar ég hafði svipt af mér sænginni og staulast út að svefnherbergisglugganum  – og sá að á tröppum fyrir utan AirBnB íbúðina sátu nokkrir einstaklingar, sem ég ímyndaði mér að væru af afrísku bergi brotnir. Þeir voru dökkir á hörund, svarhærðir og krullhærðir og spiluðu tónlist úr stórum hátalara sem þeir höfðu komið fyrir við hlið sér á tröppunum.

Í gærkvöldi á leið heim eftir veitingahúsaferð inn í miðbæ Bilbo tók ég eftir að töluverður hópur manna af afrískum uppruna sátu í þessum sömu tröppum fyrir utan íbúðina mína. Margir þeirra höfðu tekið meðferðis sessur sem þeir sátu á, eins og þeir ætluðu sér að sitja lengi, og margir þeirra reyktu svokallaðar jurtasígarettur. Þarna sátu þeir, reyktu  og spjölluðu.

Það var þó ekki fyrr en í dag eftir langa könnunarferð um borgina að ég gerði mér grein fyrir að ég bý í hverfi þar sem þorri íbúa kemur frá Afríku og það var þess vegna sem þessir einstaklingar safnast saman á tröppunum og leika tónlist ættaða frá þessum heimshluta.

Borgin, Bilbao, er stórfín og ég er stórhrifinn. Hér eru fallegar byggingar, fjörugt mannlíf, líflegt og vinsamlegt andrúmsloft.

ps. Í morgun, þegar ég hafði vaknað almennilega,  hljóp ég til Guggenheimsafnsins sem stendur á bökkum bæjarárinnar, eða við Bilbaoánna – en byggingin er eitt af undrum byggingalistarinnar – og aftur til baka. Ég var rassþungur og stirður. Því var tíminn langt frá því nógu góður til að ég geti hrópað húrra.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.