Vonda fólkið

Það er erfitt að tala um góðmennsku og erfitt að skrifa um góðmennsku. Góðmennskan notar nefnilega ekki mörg orð. Góðmennskan skilgreinir ekki sjálfa sig, góðmennskan rökræðir ekki og reynir ekki að vekja athygli á sjálfri sér. Góðmennsku er ekki hægt að útskýra. En maður skynjar hana. Góðmennskan er til.

Hinn góði maður er ekki meðvitaður um að hann er góður og veit ekki að góðmennskan er hans styrkur. En ef hann vissi það mundi góðmennska hans snúast upp í sjálfselsku. Og oft er skammt á milli góðmennsku og sjálfselsku.

Ég minnist á þetta hér vegna þess að fyrir nokkru las ég texta eftir áhrifamann sem talaði um „góða fólkið“ sem er víst hópur fólks í Reykjavík. Áhrifamaðurinn taldi sig vera hluta af „góða fólkinu“. Og hann bætti við: „Af hverju erum við kallað góða fólkið? Það er vegna þess að við erum góð.“ Mér hefur svo oft verið hugsað til þessara orða og einmitt í samhenginu að góðmennska snýst upp í sjálfselsku þegar maður skilgreinir sjálfan sig sem góðan mann. „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis.“

Ég var einu sinni á fyrirlestri hjá bandarískri konu sem var þekkt fyrir sína skörpu og hvössu samfélagsgagnrýni. Að loknu fyrirlestri hennar komu spurningar úr sal (troðfullur salur fólks) hvort hún teldi heiminn vera að farast. Og hún svaraði:
„Hvaða heim ert þú að tala um, vinan? … Ertu að tala um þinn heim? Eða ertu að tala um minn heim? Það getur vel verið að þinn heimur sé að farast. Við lifum öll í okkar eigin heimi og berjumst fyrir því sem gerir okkar eigin heim góðan og lífvænlegan. Við teljum okkur kannski góð að berjast fyrir heiminum en við erum að berjast fyrir okkur sjálf, að gera okkar eigin heim betri, jafnvel á kostnað annarra sem við teljum ekki eins góð og okkur.“ Þetta fannst mér góður punktur.

Ég er enn í París. Skrifin gengu ágætlega í gær en ég held að ég þurfi aðeins að bæta næringartaktinn í lífi mínu hér. Ég naga hveitibrauð allan daginn og nenni ekki út á kvöldin til að fá eitthvað almennilegt að borða. Mér finnst ég finna á mér að ég borða ekki almennilega. Hins vegar hljóp ég í gær niður að Signu og meðfram ánni allt til Louvre og út í garðinn, (Tulleries Garden) og út til Concorde-torgs. 11 km. Það var heitt, 28 stiga hiti en ég ákvað að hlaupa hægt, láta mótorinn malla í hægagangi. Inn á milli tók ég 200 metra spretti. Þetta var svo gott hlaup að ég ákvað að hlaupa aftur í dag.

ps.Ég  las ljóðabók Hauks Ingvarssonar  hér í París. Menn elska menn. Ég hef lesið hana áður. En mér fannst tilefni til að taka bókina með í ferðalagið. Þetta er bæði falleg, snjöll og innileg bók. Það er innileikinn sem heillar mig mest. Ég held að  það gerði öllum gott að lesa ljóðin hans Hauks, bæði góðu fólki og vondu.

pps. Hvar ætli „vonda fólkið“ búi? Á Akureyri? Ætli „vonda fólkið“ skilgreini sig líka sem „góða fólkið“?

ppps. Unga þjónustustúlkan sem starfar hér á kaffistaðnum ber með sér svo hógværan þokka að maður getur ekki annað en dáðst að henni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.