St. Barts. Mögulega ómögulegt

Ég finn léttinn. Ég er meira segja hálfhissa hvað mér er létt eftir veruna á Kúbu. Súpa í 14 daga er ekki það versta sem maður getur lent í. Heldur ekki að vaða rusl upp í ökla og vera að kafna í skítafýlu. Ekki heldur að sofa hálfónýtu rúmi. Allt þetta þolir maður vel. En ég á erfitt með að þola hnigun, hræsni og getuleysi.

Á Kúbu hittum við danska fótboltastelpu, Maríu, sem var ein á mánaðarlöngu ferðalagi um landið. Við tókum hana svolítið upp á okkar arma, buðum henni með út að borða og leyfðum henni að gista í einu af herberjunum sem við leigðum. Hún var mjög varkár með hvað hún lét upp í sig eftir að hafa fengið heiftarlega matareitrun fyrstu dagana á Kúbu. Í dag fengum við SMS frá henni þar sem hún lá á sjúkrahúsi í Havana eftir að hafa fengið matareitrun í annað sinn, enn heiftarlegri. 36 tíma uppköst. En nú er hún á batavegi.

IMG_6470

Það var mjög áhugavert að ganga strandveg þeirra Havanabúa. Einskonar Skúlagata. Maður horfir yfir hafið og veit að 150 km lengra eru strandir Bandaríkjanna. Það er eitthvað skrítið við að horfa út á hafið frá þessari strandgötu. Það er eitthvað sem stemmir ekki. Það tekur smátíma að átta sig á hvað það er sem stingur í augun og svo allt í einu kemur það. Það eru engir bátar, engin skip á siglingu. Og skýringuna fékk ég svo í dag þegar ég las grein um Kúbu. Kúbanir mega ekki eiga báta eða sjóför sem eru nothæf til að sigla yfir til Bandaríkjanna.

Á ferðum okkar um Kúbu tók ég eftir að það var ótrúlega fátítt að sjá ræktað land. Af og til blöstu við sykurreyrsekrur. Sjaldan sá maður bananaræktun. Og enn sjaldnar sá maður maísekrur. Ég velti þessu oft fyrir mér án þess að orða þessa hugsun mína. Hélt kannski að hið ræktaða land væri fjarri vegum. En svo las ég í dag að 80% af þessu frjósama landi, sem Kúba er, er óræktað.

Alls staðar sem maður kemur eru risastór plaköt með myndir af byltingarhetjum Kúbu. Fidel Castro, eða Che Guevara. Og slagorðin voru eitthvað á þessa leið:
“Byltingin að eilífu.”
“Sósíalisminn gerir það ómögulega mögulegt.”  Já.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.