Að hafa áhuga á fegurðinni …

Dagarnir hér í París skríða áfram, ég er ánægður með lífið þótt ég hafi ekki skrifað eins mikið og mig hafði dreymt um, en ég held að mér fari fram á margan hátt. Ég ákvað strax í morgun þegar ég vaknaði að hlaupa af stað og skoða nýja verk Christos, innpökkunina á Sigurboganum. Ég var mjög áhugasamur um að skoða verkið og hlakkaði ólýsanlega til. Ég hef undarlega mikinn áhuga á fegurðinni, þessari tegund af fegurð, eins og ég hef áhuga á Guði.

Ég hafði reiknað út að hlaupaleiðin væri tæpir 13 km en þar sem mér tekst aldrei að fara beinustu leið endaði ég með að hlaupa 17,5 km og nú er minn gamli kroppur aumur. En það var vel þess virði. Mér fannst innpakkaður Sigurboginn áhrifamikil sjón og ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma þessum hlaupatúr á meðan ég lifi. Já, lifi fegurðin.  (sjá mynd að ofan)

En nú, eftir langhlaupið og sturtuna, er ég sestur á minn góða kaffistað þar sem ég get fengið kaffi, gott brauð með avokato, eigandinn er brosmildur og glaður og unga, sjarmerandi þjónustustúlkan er bæði fögur og góðviljuð. Hér ríkir svo glaðvær stemmning að ég gæti setið allan daginn til að fylgjast með þessu góða fólki sem starfar hér og þeim brosmildu gestum sem detta hingað inn.

Ég fylgist ekki náið með stjórnmálabaráttunni á Íslandi. Reyni þó. Las viðtal við stjórnmálaleiðtogann Gunnar Smára Egilsson, hann er mælskastur þeirra stjórnmálaforingja sem eru í framboði. Mér finnst þó  framsetning hans ekki falleg, það er einhver – ja, kannski ekki rétta orðið – ljótleiki í þessu öllu. Ég get ekki sagt að ég hafi samúð með honum eða á málstað hans. En þó þykir mér umræðan um notkun hans á einkaflugvélum og hvort hann sé kapítalisti sérstaklega hallærisleg og í mínum mati byggir þessi umræða á einhverjum hörmulegum misskilningi.

Í viðtölum leggur Gunnar Smári alltaf ríka áherslu á hversu fátækur hann sé, eigi ekki bót fyrir boruna á sér, eins og það geri hann að betri manni eða að trúverðugri forystumanni sósíalista. Eins og efnahagur einstaklings skilgreini hvaða mann maður hefur að geyma eða þurfi endilega að hafa áhrif á skoðanir, trú, sálarlíf eða hugsjónir einstaklings. Það er eins og  Gunnar Smári haldi að einmitt hans eigin fátækt, að hann sé svona skítblankur, geri hann ekki að kapítalista eins og margir vilja troða upp á hann. Ef ég man rétt er marxíska skilgreiningin á kapítalista, maður sem borgar fyrir vinnu annarra, kaupir vinnu annarra og notar þetta keypta vinnuafli til að afla sér peninga. Gunnar Smári er ekki kapitalisti en hann hefur verið kapítalisti, það var þegar hann átti Fréttablaðið og Fréttatímann, og keypti fólk til að vinna fyrir sig (svo er það annað mál hvort hann gat borgað vinnuafli sínu). Þeir sem geta á endanum ekki borgað fyrir vinnuafl sem þeir ráða eru gjaldþrota kapítalistar. En nú er Gunnar Smári ekki með neinn atvinnurekstur og því ekki kapítalisti. Hann er heldur ekki kapítalisti þó að hann fyrr í lífinu hafi þegið far með einkaþotu. Val á farartæki eða ferðamáta, skilgreinir heldur ekki hvort maður er kapítalisti. Hvernig maður velur að komast á milli tveggja staða segir ekkert um skoðanir manns. Að fljúga með einkaþotu, en ekki Icelandair, til Kaupamannahafnar er það sama og að velja að þiggja far með einkabíl til Mosfellsbæjar í stað þess að taka strætó eða aðrar almenningssamgöngur. Slíkt gerir mann hvorki að kapítalista, að verri mann eða betri. Á sama hátt gerir það ekki söngkonuna Björk kapítalista þótt fjárhirslur hennar  væru stútfullar af peningum eða Boga Ágústsson að sósíalista væri hann hrikalega blankur.

Annars vona ég bara að Katrín Jakobsdóttir vinni kosningarnar. Ég hef mesta trú á henni sem manneskju af öllum þeim stjórnmálamönnum sem ég hef fylgst með. Mín samúð er með henni og ég er viss um að hún kunni að meta fegurð innpakkaðs Sigurboga.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.