Þegar ég geng um götur Parísarborgar, sem er ekki oft, þar sem ég nota lungann úr deginum sitjandi (lh. nt.) innandyra á stól við skrifborð, hlusta ég á nýja bók Sally Rooney, Beautiful World Were Are You. Ég hlusta á bókina á ensku og lesturinn er frábær. Konan sem sér um upplesturinn les megintextann á einskonar há-ensku (Oxford-ensku) en skiptir yfir í írsku þegar persónurnar (sem koma flestar frá Dublin) tala. Þetta er gífurlega sjarmerandi lestur og bókin finnst mér skemmtileg. Gaman fyrir mig að heyra um persónur sem hrærist í bókaheiminum; önnur aðalpersónan er rithöfundur en hin vinnur á bókmenntatímariti. Einhvers staðar las ég að með Sally Rooney og hennar kynslóð hefðu bókmenntatextar skipt frá því að vera textar byggðir á rödd, stíl eða tóni yfir í að vera bókmenntatextar þar sem persónulegur tónn eða stíll er ekki málið, heldur að skrifa það rétta. Hafa rétta afstöðu. Ég skil hvað átt er við þegar ég hlusta og les Sally Rooney.
Beautiful World Were Are You fjallar ekki bara um unga, heilbrigða, fræga, ríka konu sem verður ástfangin og kvartar undan undan hinum ungu og heilbrigðu, frægðinni, ríkidæminu og ástinni. Bókin fjallar líka um fyrirlitningu (kannski of sterkt orð, óánægja er kannski betra orð) og félagslegan kvíða (stöðu innan hópsins). Það sem gerist í þessari sögu, ekki margt satt að segja – partý í írskum smábæ og ferðalag til Rómar – er notað til að sýna þessa óánægju og þennan félagskvíða. Aðalpersónan, rithöfundurinn Alice (sem er einskonar tvífari Sally Rooney) er óánægð með foreldra sína, hún er óánægð með kapítalismann, hún er óánægð með sitt fólk, hún er óánægð með menningarelítuna, hún er óánægð með bókmenntaheiminn, hún er óánægð með bókmenntirnar og kannski ekki síst, óánægð með … sjálfa sig. Og það er málið með þessa frásögn; hún er ekki byggð á sterkri höfundarödd heldur er frásögnin lituð af þessari afstöðu höfundarins sem notar hlutlausan texta í frásögnina, sem er nákvæm, lífleg og allt er á réttum stað.
Ég skemmti mér þó ágætlega.
Dagarnir í París fljúga. Nú er kominn föstudagur og ég er á mínum kaffistað og mér finnst allir svo glaðir hér. Menn (í merkingunni fólk) koma skælbrosandi inn um dyrnar, heilsa glaðlega og eigandinn heilsar glaðlega á móti. Unga, brosmilda þjónustustúlkan er þokkafull og glöð. Fólk virðist þekkja hvert annað, spjallar glaðlega saman og á lífleg samtöl. Mikið hefði verið gaman að opna slíkan stað á Bræðraborgarstíg þegar ég rak forlagið þar. Það hefði verið fullkomin blanda, forlag, sala á bókum, ólífuolíu og hverfiskaffihús með glöðu fólki. Þá hefði ég opnað framhliðina á Bræðraborgastígnum á sama hátt og gert er hér (sjá mynd). En þetta er auðvitað tálsýn útlaga. Ég rek ekki lengur forlag (hvorki á Íslandi né annars staðar), ég bý ekki lengur á Íslandi, kaffihúsarekstur er ekki dans á rósum og opin framhlið í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem eilíft rok hvín, er kannski bara della.

Í gær hljóp ég langhlaup í fyrsta skipti í París. Ég hljóp tæpa 9 km á vonlausum tíma. Mér fannst gaman að þjóta um stórborg, gaman að hlaupa meðfram Signu og hlaupa í þessu hressilega umhverfi. En það eru margar hindranir fyrir hlaupara í Parísarborg; rauð ljós, bílar, fólk, barnavagnar, hjólreiðamenn … Auðvitað villtist ég (hvernig sem það er nú hægt) og átti í erfiðleikum með að koma rétt inn í götuna mína. Ég er auðvitað algjör rati.