Aftur ákvað ég í morgun að fara krókaleiðir að vinnustofunni, velja fallega leið umfram fljótlega leið, en ég þarf að sannfæra sjálfan mig mörgum sinnum á göngunni að gott sé að gefa mér þessar fáu aukamínútur í hreyfingu. Að stytta sér leið og koma sér að verki er hins vegar svo freistandi því litla hjartað í mér segir að verkin sem bíða séu svo mörg.
Ég hef sennilega nefnt það áður en ég segi það enn: fátt gleður mig meira en safarík bréf (tölvupóstur) sem mér berast. Í morgun biðu mín í símanum mínum bréf, fleiri en eitt og fleiri en tvö, úr allóvæntri átt; eitt frá kaffihúsaeiganda, eitt frá sjónvarpsstjörnu, eitt frá kvikmyndagerðarmanni, tvö frá rithöfundum. Ég vaknaði allferskur í morgun og setti mig hiklaust fram á rúmbríkina til að láta blóðið streyma upp á við og á meðan ég beið eftir að blóðið hafði náð alla leið upp í hausinn á mér (kroppurinn er langur) tók ég fram síma sem ég á og skoðaði þau skilaboð sem höfðu borist mér í gærkvöldi og í nótt. Ég er ekki alltof duglegur að athuga símann minn og hafði gleymt honum í hleðslu í gærkvöldi því var það ekki fyrr en í morgun að ég sá öll þessi fínu skilaboð.
Og einmitt erindi þessara bréfa fylgdu mér á göngunni í morgun eftir þröngum stígum og fáförnum götum bæjarins míns. Ég samdi svörin í huganum á göngunni. Það olli mér þó vonbrigðum að mér tókst ekki ætlunarverk mitt að fá einn af virtari kaffihúsaeigendum bæjarins til að setja á fót kaffihús á Bræðraborgarstíg 9, í húsnæðinu sem Bjartur var í þegar ég starfaði á Íslandi. Kaffihúsaeigandinn hafði ekki orku í að stofna nýtt kaffihús. Við Fúsi keyptum nefnilega þetta skrifstofupláss á Bræðraborgarstíg fyrir meira en 20 árum af Íslandsbanka. Bankastjórinn var mikill bókmenntaáhugamaður og seldi mér aðstöðuna 450 fm. fyrir eitt stykki Frú Bovary (innbundin) í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Þetta eru bestu viðskipti sem ég hef átt um ævina en nú hangir þetta húsnæði á mér og það þarf að leigja það út. Mig langar helst að þarna sé góð starfssemi, helst bókabúð, forlag, kaffihús. Og það var þess vegna sem ég hafði sambandi við þennan góða kaffihúseigenda.
Annað erindið sneri að þýðingu á bók sem ég var beðinn að taka að mér. Það vill svo til að ég er sérfræðingur í þessu verki eftir að hafa þaullesið bókina fyrir ekki löngu. En þar sem ég er upptekinn með tvö handrit að öðrum verkum get ég því miður ekki tekið þýðinguna að mér þótt mig dauðlangi til þess.
Hin erindi dagsins voru meira persónulegs eðlis og óþarfi að tíunda þau hér opinberlega þótt þau hafi líka fylgt mér á göngutúrnum.
Ég var ekki fyrr sestur á minn góða skrifstofustól að ég hófst handa og setti kraft í að búa til yfirlitið, tímalínuna í hinni nýju bók sem ég skrifa og ég hef haft svo djúpa þörf fyrir. Ég skrifaði, prentaði, límdi og setti upp hina fínu tímalínu (sjá mynd). Í gær fékk ég þó athugasemd frá aðila sem ég þekki sem fannst hálfaumkunarvert af mér að þurfa að setja upp yfirlit. Það fannst honum aulalegt af höfundinum. En ég er byrjandi, afsakaði ég mig með.
En nú má ég ekki vera að því að skrifa meira. Verkin bíða og ég er á leið til Íslands á morgun þar sem mér verður sennilega ekki mikið úr verki.