Espergærde. Hið opna sálfræðistríð

Ég fékk frekar fyndið bréf í gær þar sem mér var bent á að mótherjar mínir í bréfskákinni gætu lesið Kaktusinn og nýtt sér hina augljósu angist sem skein í gegn í texta mínum til að þróa sálfræðistríð gegn mér. Bréfritari lét þess getið að hann væri viss um að þeir mundu ekki hringja í gær og leika sinn leik eins og þeir hefðu lofað. Hann hafði rétt fyrir sér. Ekkert heyrðist í mótherjum mínum. Ég hló með sjálfum mér, því vinur minn sem sendi þessa ábendingu, hefur tilhneigingu til að sjá frekar hindranirnar á veginum en endamarkið þegar leysa þarf verkefni. Þegar ég skrifa um blindskákina á Kaktusnum er ég ekki hræddur að mótherjar mínir lesi. Þeir tala ekki íslensku og búa ekki einu sinni í Danmörku. Google býður að vísu upp á þýðingu textans en mér er alveg sama. Þeir mega lesa.

Mér var líka bent á aðferð til að sjá hvaðan traffíkin inn á Kaktus kæmi, frá hvaða landi og frá hvaða borg. Það gerði ég í gær og mér til nokkurar furðu eru 13-15 einstaklingar (eða ólík tæki), búsettir í sömu borg og skákmótherjar mínir, sem hafa lesið Kaktusinn undanfarna daga. Ég athugaði hvort þetta var líka raunin áður en skákin hófst og þá kemur í ljós að 5 til 8 komu inn á Kaktusinn að jafnaði frá þessari sömu evrópsku borg. Ekki veit ég hvort ég eigi að túlka það svo að mótherjar mínir lesi Kaktusinn og noti sálarástand mitt sér til framdráttar í skákinni.

Árið 1972 þegar Spassky og Fischer tefldu einvígisskákir sínar í Laugardalshöll notaði Fischer allskyns brögð til að taka Spassky af taugum. Til dæmis var alltaf óljóst hvort Fischer mætti til leiks. Hann gerði það að leik sínum að mæta rétt áður en klukkan féll á hann, þ.e. klukkustund of seint og lét Spassky bíða milli vonar og ótta. Í þriðju skákinni (staðan var 2-0 fyrir Spassky) neitaði Fischer að tefla nema tökuvélar sjónvarps yrðu fjarlægðar. Suðið truflaði hann. Spassky varð við kröfum Fischer, sem menn töldu gífulegan sálfræðilegan afleik, og skákin var tefld í bakherbergi en ekki á sviði Laugardalshallar eins og fyrstu tvær skákirnar. Spassky tapaði skákinni og var þetta í fyrsta sinn sem Spassky tapaði fyrir Fischer. Þriðja skálkin varð vendipunktur einvígisis þar sem Fischer vann  fjórar af næstu sex skákum og bar svo sigur úr býtum í einvíginu eins og frægt er orðið.

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.