Á göngu minni í gær úti í náttúrunni – ég veit ekki hvort maður getur kallað þetta göngu þegar maður haltrar eins og gamlingi eftir fáförnum götum meðfram endalausum túnum – kom skyndilega, eins og elding af himnum, orð úr einhverju ljóði sem ég las fyrir löngu:
að við staðhæfum stöku sinnum/ að hollt gæti reynzt að vera einhverjum eitthvað.
(Getraun: hver er höfundur þessa ljóðabrots. Verðlaun í boði. 10.000.000 euros (krónan er verðlaus) fyrir rétt svar.
Ég viðurkenni að ég er orðinn svo þreyttur á ástandinu á ökklanum á mér (ég er alltaf haltur) og að ég er farinn að leita aðstoðar sjúkraþjálfara. Hann er fyrirtakspiltur, sjúkraþjálfarinn. Hann gerir sitt besta en framfarirnar eru hægar.
Í gær sendi hann mér skilaboð og spurði hvort það væri í lagi að hann hefði lærling með sér í tímanum okkar sem var í morgun. Ég svaraði skilaboðunum um hæl og sagði að honum væri velkomið að hafa lærling með sér.
Þegar ég kom á stofuna, þar sem ungi sjúkraþjálfarinn tekur á móti sjúklingum sínum, stóð lærlingurinn honum við hlið. Kornung og sakleysisleg ljóshærð stúlka með mjóa rödd. Hún tók laust í höndina á mér og kynnti sig með nafni.
Ég settist á minn stól og spurði ungu stúlkuna hvort það væri í lagi að ég afklæddist buxunum, meðferðin á ökklanum gengi betur ef ég væri buxnalaus. Hún horfði hissa á mig og vissi eðlilega ekki hverju hún skyldi svara. Hún var svo sakleysisleg að ég var hræddur um að hún færi hjá sér þegar hún sæi mína svakalegu fótboltavöðva á lærunum, yo! Hún horfði flóttalega í kringum sig og svo á meistara sinn, sjúkraþjálfarann, áður en hún kinkaði kolli til merkis um að það væri í lagi. Hún gaf sitt leyfi fyrir að ég færi úr buxunum.
Sjúkraþjálfarinn útskýrði svo fyrir unga lærlingnum hvað amaði að mér og sagði henni að þreifa á hinum auma stað.
„Viltu leggjast aðeins á bakið,“ sagði hún svo við mig með sinni mjóu röddu.
„Á ég að leggjast á bakið?“ sagði ég undrandi.
Hún leit aftur flóttalega á meistara sinn. Ég lagðist á bakið og ákvað að hætta að stríða þessari máttleysislegu stúlku.
Hún var bæði handköld og handtök hennar voru slöpp og hikandi. Ég sá eiginlega eftir að hafa gefið sjúkraþjálfaranum leyfi til að koma með þessa líflitlu stúlku með sér.