Mér þótti það svolítið umhugsunarvert að verða vitni að því, þegar þessi skrítni skari Trump-stuðningsmanna réðst inn í þinghús Bandaríkjamanna í Washington, að þau gripu ekki til vopna sinna til að ná yfirráðum yfir þinghúsinu heldur veiddu þau upp snjallsímana sína (slíkir símar hafa myndvélar) og fóru að taka myndir af sjálfu sér (kallað selfies) í þessari sérkennilegu stöðu – að spígspora inni í hjarta lýðræðisins – til þess eins að senda sjálfsmyndirnar inn á samfélagsmiðlana. Til hvers? Að sjá fréttamyndir af þessu sérkennilega fólki inni á skrifstofum þingsins, inni í sjálfum þingsalnum eða úti á göngunum og allir með símana á lofti í sjálfsmyndastellingu. Þetta sýnir kannski mátt samfélagsmiðlana yfir fólkinu og hversu stóra þýðingu þeir hafa, líka fyrir þennan brogaða skara sem barðist fyrir Trump og völdum hans. Var allt þetta uppþot til þess eins að ná góðri sjálfsmynd? En nóg um það. Þetta er þriðja daginn í röð sem ég skrifa um hættuna sem stafar af samfélagsmiðlunum og hversu nálægt þeir eru að drepa sál okkar. En ég læt þetta gott heita og skrifa ekki um þessa vá á næstunni. Ég er ekki eins upptekinn af þessu og gæti virst.
ps Í nótt rifjaði upp með sjálfum mér löngu liðinn vetur þegar ég bjó enn á Íslandi og var lokkaður af einum af vinum mínum til að vera hluti af hóp manna sem spilaði fótbolta innanhúss einu sinni í viku í íþróttasal á Skemmuvegi. Í þessum hópi var fjöldi frægra manna auk minna frægra en ég þekkti þetta fólk ekki, bara vin minn. Og svo hófst vetrartímabilið með innanhússfótbolta en félagi minn hætt strax eftir einn tíma og skildi mig einan eftir með þessu ókunnuga frægðarfólki. Satt að segja veit ég ekki hvað gerðist innra með mér þennan vetur – eitthvað hlýtur að hafa bjátað á – því ég man að ég var svo reiður, ég var svo bálreiður allan þennan vetur á meðan ég spilaði fótbolta með þessum mönnum. Ég bölvaði þeim í sand og ösku, ég fór gífurlega harkalega inn í allar tæklingar og þegar ég skaut á mark var það með öllum mínum kröftum. Ég var gersamlega viti mínu fjær af skapvonsku. Ég yrti aldrei á þessa menn nema með einhverjum fúkyrðum. Mér fannst þeir meðalmennskan holdi klædd (ég segi ekki að ég sé neitt skárri). Enginn sem þekkir mig kannast við þessa sturluðu hlið á mér en ég lofa að þennan fótboltavetur leið mér svona og óhamin reiði mín fékk útrás í íþróttasal á Skemmuvegi. Veturinn endaði illa þar sem mér á vormánuðum tókst að brjóta á mér öxlina þegar ég flaug yfir einn af þessum fótboltagúbbum og hrapaði úr mikilli hæð með höfuðið á undan niður á gólfið. Þar með stoppaði þetta vitfirringslega tímabil mitt.
Ég velti fyrir mér í morgun hvað varð til þess að hugurinn leitaði til baka til þessara vetrardaga – sem af og til vekja furðu mína – og ég er helst á því að hugtakið meðalmennska sem kviknaði í kollinum á mér í gærkvöldi, þegar mér var sýnt á Instagram eitthvað klipp úr miðri Reykjavík og það hugtak hafi leitt huga minn aftur á Skemmuveginn. Þegar ég skoðaði þessa innihaldslausu Instagram-story (klippið heitir story) stundi ég ósjálfrátt: „Æ, sjá þessa ömurlegu meðalmennsku, og mörgum sinnum á dag eru þessi klipp sett inn af þessari manneskju … Meðalmennska!“
Hugtakið meðalmennska. Níutíu prósent af öllu fólki er meðalgreint og almennt í meðallagi. Aðeins 10 prósent af fólki er annað hvort afburðargreint eða afburðarheimskt og því miður verð ég að viðurkenna að ég er hluti af þessum 90% meðaljónum sama hversu mjög ég hata meðalmennsku í öllum sínum birtingarformum.
pps og nú er ég alveg óvart farinn að lesa Ævisögu Balzac, Honoré de Balzac, eftir Stefan Zweig. Hann var ekki meðalmaður. Ég er frekar óvanur að lesa ævisögur en ég er forvitinn að lesa um franska rithöfundinn sem var svo afkastamikill (margar bækur á ári). Ég er ekki bara að lesa um Balzac. Nú hlusta ég þegar ég hleyp enn og aftur á The Buried Giant, Kazuo Ishiguro, í stórkostlegum upplestri. Það er ekki meðalmennska! Og nú hleyp ég daglega eins og óður maður, næ varla að stoppa áður en ég er aftur lagður af stað í nýtt hlaup.