Espergarde. Lyklar að völdum.

Nú þegar mörgum er ljóst hversu hættulegur maður Donald J. Trump er, hefur aðgangi hans að sterkasta valdatæki samtímans verið lokað s.s. Twitter, Facebook og Instagram, en lyklarnir að kjarnorkusprengjum Bandaríkjanna eru enn í hans höndum. Ég er viss um að hann gæfi þá lykla í skiptum fyrir aðgang að samfélagsmiðlum. Þegar maður lítur til baka prísar maður sig sælan að hann kom ekki af stað þriðju heimstyrjöldinni með twitter-færslum sínum.

Ég týndi tölu af jakkanum mínum í gær. Það var fyrir framan verslun sem smíðar lykla, gerir við leðurskó, selur húsnúmer og lyktarpúða fyrir bíla. Búðareigandinn er bæði sótugur í framan og óvenju höfuðstór. Ég horfði á eftir svörtu tölunni sem slitnaði af jakkanum og skoppaði fyrst eftir steinsteyptu stéttinni en rúllaði svo í hlykkjum niður örlítinn halla að niðurfalli með brotna járnrist. Þar niður hvarf hnappurinn. Ég gekk hugsi sömu leið og talan, kíkti niður í gegnum glufuna, sem sé sömu glufu og hnappurinn hafði smeygt sér niður um. Þótt ég rýndi niður var ekkert að sjá nema óvenju þétt myrkur sem líktist fljótandi tjöru og augu mín náðu ekki að bora sig þar í gegn. Eitt andartak velti ég því fyrir mér hvort þessi svarti hnappur flyti ofan á kolsvörtum myrkurmassanum og ég íhugaði að stinga hendinni niður til að fálma eftir hnappinum og kanna um leið hvort ég væri nógu sterkur til að þrýsta hendinni í gegnum seigfljótandi myrkrið.
„Passaðu þig að rotturnar bíti þig ekki í puttana,“ sagði gamall sem hafði átt leið hjá en staldraði við til að fylgjast með veseninu í mér. Töluna fann ég ekki og nú veit ég ekki hvar hægt er að kaupa nýjar tölur hér á Norður-Sjálandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.