Espergærde. Nýtt húðflúr.

Ég ákvað að panta tíma í klippingu í morgun og mér til nokkurrar undrunar fékk ég tíma strax klukkan 9:45. Sem sagt rúmum tveimur tímum eftir að ég pantaði. Aldrei fyrr hef ég farið í klippingu hjá þessum hárgreiðslumeistara sem opnaði stofu sína hér í bænum fyrir nokkrum árum. Hún hefur gott orð á sér, þykir góð að klippa og talar ekki of mikið. Hún er held ég af tyrkneskum ættum, að minnsta kosti ef maður rýnir í nafnið hennar virkar það ansi tyrkneskt.

Þegar ég kom inn á fína og snyrtilega hárgreiðslustofuna, þar sem allt angaði af hárkremi og fegurð, tók ungi hárgreiðslumeistarinn sjálf á móti mér. Hún er ung og þokkafull og virtist ekki eiga sérlega annríkt þótt kona sæti í hárgreiðslustólnum hennar með furðulega marga pappírssnepla í hárinu. Þetta er eitthvað nýtt til að fegra hárið, hugsaði ég án þess að veita konunni í stólnum sérstakan áhuga. En mér heyrðist hún þó kasta kveðju á mig undan hárskrautinu. Ég brosti bara út í loftið og kinkaði kolli svona til vonar og vara. En tyrkneski hárgreiðslumeistarinn bað mig að fá mér sæti í biðstól því hún væri um það bil tíu mínútum á eftir áætlun. „Og til hamingju með afmælið,“ bætti hún svo við.
„Takk,“ svaraði ég. Ég var auðvitað hissa að hún skyldi vita að ég hafi átt afmæli í gær, en hugaði ekki frekar út í það.

Eftir bið sem var nokkuð lengri en tíu mínútur kom röðin að mér. Konan sem hafði setið í stólnum með pappírssneplana hafði nú fengið sína fegrunarmeðferð og kom gangandi til mín með bylgjandi hár. „Já, til hamingju með afmælið. Sonur minn á líka afmæli í dag. Frábær dagur,“ sagði hún og tók sér stöðu fyrir framan mig. Þetta var lágvaxin og grönn kona sem augljóslega hafði peninga á milli handanna því hún hafði gull og demanta á hverjum fingri og fötin báru góðum efnahag vitni.
„Til hamingju með soninn þinn. En ég átti afmæli í gær,“ sagði ég. „Ég þarf því að bíða í ár eftir að eiga afmæli aftur,“ bætti ég við, því ég tók eftir að konan er ein þeirra sem hlusta ekki alltaf á viðmælendur sína og ég sá í svip hennar að hún var hugfanginn af hársnyrtivörunum sem tyrkneska hárgreiðslukonan var að endurraða í hillu út við einn gluggann. Við fylgdumst bæði með henni setja brúsana með hárefnum í þráðbeinar raðir í hillunni. Síðan leit hún upp þegar hún fann augun hvíla á sér. Hún brosti og gaf mér bendingu með einum fingri að koma til sín. Það var galsi í henni. Ég kvaddi því konuna, sem hafði lokið sinni hármeðferð, en hún var ekki tilbúin að kveðja því hún spurði í hálfgerðum flýti hvort ég kannaðist ekki við sig. Við mættumst svo oft á göngu.
„Jú, auðvitað, blessuð og sæl,“ laug ég því mér fannst ég aldrei fyrr hafa séð þessa konu.
„Við sjáumst … út í móa,“ sagði hún og veifaði brosandi til mín með öllum sínum fingurgullum.

Ég settist í stólinn til að fá hárið snyrt.
„Já, aftur. Til hamingju með daginn. Þú notar afmælisdaginn til að láta klippa þig. Er eitthvað fleira á dagskrá hjá þér í dag?“ sagði tyrkneski klipparinn.
„Ég átti afmæli í gær,“ leiðrétti ég brosandi. „En í dag ætla ég bara að vinna.“
„Ætlarðu ekkert að gera til hátíðarbrigða?“ spurði hún brosandi. Ég leit á hana. Skildi hún mig ekki? Var íslenski hreimurinn of framandi fyrir hana. Var svona erfitt að skilja að ég átti ekki afmæli í dag? Sjálf talaði hún ekki fullkomna dönsku. Maður skynjaði greinilega arabíska hljóminn í röddinni hjá henni. Ég ákvað að reyna einu sinni enn.
„Í dag geri ég ekkert sérstakt, enda var afmælið í gær. Í gær, á afmælisdeginum, var hins vegar margt gert til hátíðarbrigða …“
„Já, hvað ætlarðu að gera til að halda upp á afmælið?“
Ég gafst upp. Hún var algjörlega föst í að ég ætti afmæli í dag svo ég svaraði bara: „Ég fer í fallhlífastökk síðar í dag ….“
„Í alvöru, æði!“ hrópaði hún glöð.
„… og er líka búinn að panta tíma í húðflúr klukkan fimm. Ég ætla að láta tattóvera Pepsi Max lógóið á mig. Mér finnst Pepsi Max svo rosalega gott!“
„Í alvöru, algjört æði!“ hrópaði hún aftur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.