Mynd: Niels Hougaard

Ja.is gefur það ekki upp.

Röð tilviljana er hugtak sem oft er notað til að útskýra hvers vegna eitthvað hafi gerst. En sennilega er það engin skýring að röð ófyrirsjáanlegra atvika leiði til síðasta atviksins í röðinni. En  það var samt atvikaröð sem leiddi mig í vikunni að skáldkonu að nafni Anne Carson. Það leið satt að segja afar stuttur tími milli þessara atvika. Augljóslega er eitthvað sem flögrar í loftinu í kringum mig sem vill vekja athygli mína á þessari kanadísku (eða á ég frekar að segja íslensku) skáldkonu Anne Carson.

Allt byrjaði á því að ég rakst á grein þar sem sagt var frá því að Anne Carson, sem þykir líkleg til að vinna Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, hefði komið til Kaupmannahafnar árið 2001. Forsaga málsins var að bróðir hennar var handtekinn í Kanada fyrir að selja fíkniefni árið 1978. Honum tókst stuttu eftir handtökuna að flýja réttvísina, flýja land og Anne Carson sá hann aldrei síðan. Að vísu hringdi bróðirinn í Anne árið 2001 og sagðist dvelja í Kaupmannahöfn. Þau sammæltust um að hittast í borginni síðar á árinu ef af þeim fundi varð þó aldrei því Michael bróðir hennar dó áður en Anne náði til Kaupmannahafnar. Þetta var nú frásögnin sem ég las.

Sama dag og ég rakst á söguna um Anne Carson og ferð hennar til Kaupmannahafnar var ég að hlusta á bókahlaðvarp The New Yorker og var gestur þáttarins þekktur rithöfundur sem ég man ekki hver var en hann valdi að fjalla um nýja bók Anne Carson, Wrong Noma sem kom út í ár (2024). Fyrsta saga bókarinnar var lesin og rædd. Þótt ég ætti stundum erfitt með að fylgja því sem fram fór í sögunni (ég var líka að slá gras) var ég ansi heillaður. Ég notaði daginn til að lesa aðeins um Anne Carson og komst þá að því að hún væri íslenskur ríkisborgari. Hún getur því kallað sig íslending og Ísland á þá möguleika á að eignast nýjan Nóbelsverðlaunahafa innan skamms. Það er líka langt síðan þjóðin eignaðist síðast Nóbelsskáld og því sannarlega kominn tími til þess.

Næsta dag kom með póstinum lítið tímarit sem ég er áskrifandi að og aðalefni tímaritsins var umfjöllun um Anne Carson og þær þrjár nýjar þýðingar á bókum hennar sem væntanlegar eru á dönsku innan skamms. Ég varð hissa. Ég hafði samband við Ragnar Helga því ég hafði komist að því að hann var í einhverjum tengslum við skáldkonuna og hafði líka gefið út eina af bókum hennar. Hann lumaði líka á óútgefinni þýðingu á bókinni The Albertina Workout, sem hann sendi mér. The Albertina Workout fjallar um samband Prousts við aukapersónu í bókhlunknum, Leitinni að glötuðum tíma. Albertine er þjónustustúlka Prousts. Þótt Albertine megi kallast aukapersóna í bókinni  kemur nafn hennar þó fyrir 2.363 sinnum í skáldsögum Prousts, oftar en nafn nokkurrar annarrar persónu. Sjálf er Albertina viðstödd eða nefnd á nafn á 807 síðum í skáldsögu Prousts. Þetta lærði ég á lestri bókarinnar The Albertina Workout. Bókin náði þó ekki alveg að heilla mig. Þannig er það stundum með mig að ég á erfitt með að hrífast. En svo sama dag las ég ritgerð eftir skáldkonuna: The Glass Essay úr bókinni Glass, Irony and God. Þar reynir hún að lýsa einhverju sem hún kallar skilning á því hvað lífið er. The Glass Essay lesturinn náði mér algjörlega.

Í gær fór ég enn og aftur að hugsa til skáldkonunnar og af hverju ég hefði aldrei heyrt um að þessi góða skáldkona hefði fengið íslenskan ríkisborgararétt árið 2022 og ætti heima í mínu eigin landi. Mér fannst eitthvað dularfullt við Anne Carson – sem  samt er sennilega ekkert dularfull –  að ég fletti henni upp á já.is til að vita hvar hún ætti heima.

Ja.is gefur það ekki upp.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.