Í tilefni dagsins

Það er sól í Danmörku í dag enda sumardagurinn fyrsti á Íslandi. Í morgun hljóp ég meðfram strandlengjunni undir bláum himni og hlustaði samtímis á þáttinn Bara bækur sem Rás 1 bíður upp á einu sinni í viku. Í þætti dagsins fjallaði umsjónarmaðurinn Jóhannes meðal annars um bók eftir indverska rithöfundinn Perumal Murugan sem hann kallar Saga af svartri geit. Það var skemmtilegt að hlusta á umfjöllun útvarpsmannsins um þessa litlu, hvítu bók sem kemur út í ritröð þýddra bóka frá framandi slóðum hjá bókaforlaginu Angústúru.

Ég gat ekki gert að því en hugur minn fór á flakk undir tali umsjónarmannsins og ég staldraði við atvik sem gerðist að vetri til fyrir tveimur árum, já, í nóvember þegar auglýsingar í útvarpi fyrir jólabækur eru í hámarki. Ég var staddur á Íslandi og eins og einhvern veginn er óhjákvæmilegt þegar maður er staddur í föðurlandi sínu þá þarf maður alltaf vera að aka bíl. Bílútvarpið hljómaði í bílnum og aftur og aftur kom auglýsing frá Angústúru sem, hljómaði nákvæmlega svona: „Bækur í áskrift, Angústúra.“

Ég varð jafn hissa í hvert sinn sem auglýsingin hljómaði. Hvað er átt við með bækur í áskrift? Ég get ekki bara ákveðið að gerast áskrifandi að bókum, hugsaði ég. Það eru satt að segja afar fáar bækur, af öllum þeim bókum sem koma út, sem ég hef áhuga á og því fannst mér ég ekki bara gerst bókaáskrifandi. En þetta þótti mér þó svo fyndið að í hvert skipti sem auglýsingin var lesin skellti ég upp úr. Ætli ég hafi ekki verið eini hlustandi ríkisútvarpsins sem lét auglýsinguna kitla hláturtaugarnar.

En þátturinn hans Jóhannesar var skemmtilegur og mér þótti indverska bókin áhugaverð og hefði vel getað gest áskrifandi að nákvæmlega þessari bók. Sennilega er útvarpsþátturinn Bara bækur eini opinberi íslenski vettvangurinn þar sem er fjallað á áhugaverðan hátt um þýddar bókmenntir. Annars er mikil þögn um þennan geira bókmenntanna og kemur ekki á óvart að útgáfa á vöndum þýddum bókum er að lognast út af í hinu mikla menningarlandi, Íslandi. 

ps. ég las einnig viðtal við Sigþrúði Gunnarsdóttur, frkv.stj. Forlagsins þar sem hún segir meðal annars frá því að íslensk bókaútgáfa hefði farið á hliðina eða „hrunið“ ef ekki hefði verið sett lög á Alþingi um að styðja bókaforlögin með endurgreiðslu á hluta þeirra útgjalda sem forlögin þurfa að taka á sig við útgáfu bóka. Mér þykir þetta sorglegt að heyra að íslensk bókaútgáfa geti ekki plumað sig án þess að ríkið hlaupi undir bagga.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.