Hin óvænta gjöf að ofan

Á meðan ég hlustaði á útvarpsþáttinn Bara bækur (umsjón Jóhannes Ólafsson) sem fjallaði í þetta sinn um mannakjötsát hljóp ég enn einu sinni eftir Strandvejen. Ég get ekki sagt að það auki hlaupahraðann að hafa slíkan útvarpsþátt í eyrunum – eða talað mál yfirleitt –  en ég hef áhuga á að hlusta á samtöl um bókmenntir. Ég hef innilega gaman að bókatali þótt efni þáttarins í dag höfðaði ekki til mín. Þó þótti mér áhugavert að hlusta Braga P. Sigurðsson, sem héðan frá útlandinu virðist vera einhvers konar fjölmiðlastjarna, tala um streð sitt við að skrifa bækur sem enginn hafði löngun til að lesa. Þrátt fyrir lítinn áhuga heimsins á skrifum hans heldur hann sífellt áfram… áfram og áfram og áfram alveg óháð viðtökum. Hann segist ekki geta annað.

Ég veit ekki hvort þessi ungi maður Bragi P. hafi komist að þeirri niðurstöðu að virði og hamingja mannsins fer ekki eftir hvernig eða hvort hann er dáður. Á stafrænum tímum – þar sem margir standa á hverjum degi andspænis brosandi andlitum sem maður þó er aldrei í raunverulegri snertingu við – er jörðin sérstaklega frjósöm fyrr það sem Søren Kirkegaard kallaði „sorgarinnar villta óp“. Gleðin kemur að innan og verður ekki sótt að utan. Oft virðist óhamingja fólks einmitt spretta vegna óaflátanlegrar leitar að utanaðkomandi viðurkenningu. Hin sjaldgæfu og stóru augnablik sem full eru af sönnum lífskrafti koma sem óvænt gjöf að ofan; frá náttúrunni, frá tónlistinni, frá ástinni, frá Guði eða hvað maður vill kalla það afl sem hellir þessari sjaldgæfu og sönnu gleði yfir okkur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.