Espergærde. Töfrar og pasta

Ég les. Þess vegna er ég… ég. Í gærkvöldi las ég gamalt viðtal við Federico Fellini, ítalska kvikmyndagerðarmanninn og þekktasta íbúa Rimini. Fellini fyrirleit sólböð þótt hann hefði alist upp við frægustu, eða alræmdustu, baðströnd Ítalíu. En hann skóflaði daglega í sig háum pastafjöllum. Í hans augum var lífið blanda af töfrum og pasta. Ég borða sjaldan pasta svo mitt líf er bara töfrar. Yo.

Númi var veikur í nótt. Fékk magakveisu og vakti mig klukkan hálf fjögur. Unglingurinn vildi fá einhvern til að tala við sig í veikindum sínum. Ég sat hjá honum í myrkrinu og klappaði honum eins og ég gerði þegar hann var lítill strákur með magapínu. Loks þegar hann sofnaði lagðist ég upp í sófa í stofunni og reyndi að sofna.

Í dag er afmælisdagur Sus. Ég var því kominn út í bakarí í Humlebæk klukkan 06:30 til að kaupa rúnstykki og sætabrauð fyrir afmælisbarnið. Það var lagt á afmælismorgunborð með dönskum fána. Númi hresstist í nótt og var nógu frískur til að borða sætabrauð og fara í skóla.

Hér sit ég kominn með hálsríg af stressi og velti fyrir mér næstu skrefum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.