Tennismorgunn. Hvern fimmtudagsmorgun klukkan 08:00 er ég mættur í tennishöllina hér í Espergærde. Í þetta sinn var mótherjinn Jesper Hvidbjerg, Monte Bianco, eins ég kalla hann. Sem betur fer vann ég. Mér finnst mikilvægt að vinna. Í dag var ég klæddur í alhvítt tennisdress sem ég fékk í afmælisgjöf. Ég var eins og þátttakandi í Wimbledon svo skjannahvítur var ég frá toppi til táar (líka hvítir skór). Yo. Það er ekki oft sem ég klæðist fötum sem passa við það sem ég aðhefst, en í morgun var ekki hægt að setja neitt út á útbúnaðinn.
Þessa dagana undirbý ég messuna í London. Við fljúgum á mánudaginn til London og eigum fundi með útgefendum og agentum frá því við lendum eftir hádegi á mánudaginn og þar til við fljúgum heim á miðvikudagskvöldið. Ég held bara að það sé ekki ein einasta pása. Síðasti fundur ferðarinnar er haldinn á fínu hóteli í 10 mínútna akstursfjarlægð frá sjálfri messunni. Það er skipulagður þriggja tíma fundur með náunga sem er aldeilis ljósfælinn. Hann vill ekki láta sjá sig á messusvæðinu og hann vill heldur ekki láta bókabransann sjá við hverja hann talar. Þetta finnst mér svolítið fyndið en ég skipti mér ekki af hvernig hann vill skipuleggja líf sitt. Ég tala við hann á miðvikudaginn um eitthvað sem honum þykir sjálfsagt mikilvægt.

Í gær fórum við inn til Kaupmannahafnar til að sjá myndlistarsýningu. Sus átti afmæli og því höfðum við skipulagt bæjarferðina þannig að við gætum bæði séð sýninguna og farið út að borða á eftir. Ég tók mynd inni í Kaupmannahöfn (sjá hér að ofan). Yo.