Einu sinni fyrir mörgum árum skrifaði Gunnar Smári Egilsson, núverandi stjórnmálaleiðtogi, bókina Málsvörn mannorðsmorðingja. Bókin vakti ekki sérstaklega mikla athygli og áhuginn á syndajátningum og iðrunartali Gunnars Smára var ekki yfirþyrmandi á þessum tíma. En þetta var eftir að eitt af fjölmiðlaævintýrum athafnamannsins gaf upp öndina með löngum og háværum harmkvælum eins og stundum vill verða þegar Gunnar Smári hefur byggt upp fjölmiðlaturna sína; þeir vilja hrynja með látum.
En nú hefur gamall viðskiptafélagi Gunnars Smára, sjálfur Bónusdrengurinn, Jón Ásgeir ákveðið að leggja fram sína eigin málsvörn í bókarformi. Í huga þjóðarinnar hefur Jón Ásgeir margt á samviskunni. Kannski er þjóðinni efst í huga, og á erfiðast með að fyrirgefa, þær glæsiveislur sem hann bauð vinum sínum til en gleymdi að bjóða almenningi. Það er aldrei gott að gleyma að bjóða fólki til veislu það getur komið í bakið á manni. En Jón Ásgeir hefur fengið pennafiman mann til að sjá um að færa játningarnar á blað; sjálfan sagnamanninn Einar Kárason, og vonast auðvitað til að þjóðin skilji hann betur og geti jafnvel tekið hann aftur í sátt. Jón Ásgeir hefur að minnsta kosti lofað að halda aldrei aftur stórar veislur. Það gerði hann í sjónvarpsviðtali.
Þótt bókin kallist líka Málsvörn (eins og bók GSE) heldur bæði Forlagið og höfundur (Kárason) því fram að hér sé gagnrýnin uppgjörsbók á ferðinni. Einar er enginn leigupenni, eins og hann segir. Að vísu kastar það nokkrum skugga yfir bókina og trúverðugleika hennar sem uppgjörsbókar ef upp kemst að sjálft viðfangsefni skrifanna, syndaselurinn og iðrunarpésinn, kosti bókina að hluta eða í heild.
Ég var því nokkuð hissa á hversu illa undirbúin þau á Forlaginu voru við þeirri sjálfsögðu spurningu frá fjölmiðlum hvort Jón Ásgeir, viðskiptajöfurinn, leggi fé til bókarinnar. Ef Jón Ásgeir borgar að hluta til eða í heild útgáfu Málsvarnar sinnar er augljóst að þar með minnki trúverðugleiki bókarinnar og áhugi almennings játningum Jóns Ásgeirs (og þar með sölumöguleikar). Ef Forlagið vill selja bókina á þeim forsendum að bókin leggi fram heiðarlega mynd af athafnamanninum, sannferðugt uppgjör þar sem meira að segja hinar óþægilegu yfirsjónir hans séu dregnar úr skuggaskotum, þá er kannski mikilvægt að gefa ekkert upp um hvort Jón Ásgeir kosti bókina. Halda því að minnsta kosti í óvissu. En því var rækilega klúðrað. Blaðamaður Mannlífs hringdi bæði í Einar Kárason, rithöfundinn, og kynningarstjóra Forlagisins. Bæði virðast þau vera nokkuð óundirbúin að svara þessari spurningu og ná bæði að játa því að bókin sé kostuð af Bónusdrengnum þótt þau vilji neita.
Hér á eftir fer samtal kynningarstjóra Forlagsins og blaðamanns (sem mun víst vera bróðursonur Gunnars Smára, en Gunnar Smári fær á baukinn í bókinni.):
„Blaðamaður: Bara ein spurning, af því það geta alltaf einhverjir þarna úti velt því fyrir sér hvort Jón Ásgeir hafi mögulega eitthvað komið að kostun bókarinnar.
Kynningarstjóri: Oh, já já, hann gerði það.
B: Hann gerði það, ok.
K: Uhumm.
B: Þannig að hann þá greiðir hvað, hvernig virkar svoleiðis?
K: Sko, ég er ekki alveg viss því þetta er bók sem hefur alveg verið bara hjá svona þeim hæst settustu.
B: Hvað segiru?
K: Þessi bók hefur verið bara undir umsjón þeirra hæst settustu hjá okkur, ekki eins og þegar ég er bara með skáldsögu.“ (Tekið af heimasíðu Mannlífs)